Skoðun

Mjög hvers­dags­legt og ekkert punchline

Gunnar Dan Wiium skrifar

Þegar ekkert er að. 

Ég er miðaldra. Með iðnmenntun í grunninn og talsverða starfsreynslu.

Alltaf unnið, aldrei langa daga en alltaf unnið. Ég hef aldrei leigt íbúð, svona kaupari.

Ég er gagnkynhneigður, giftur góðri konu og saman eigum við góða dóttur. 

Bý í húsi sem er ekki yfirveðsett. Á grasflöt og sólpall. Við eigum líka kött, eða einna heldur það býr köttur í stofunni hjá okkur. Hún hefur búið hjá okkur í 5 ár.

Veit ekki hvort hún myndi halda því áfram ef ég myndi ekki gefa henni að borða. Hún myndi örugglega bara fara, hún er samt mjög löt og ég veit ekki hvað hún heitir. 

Ég vinn með börnum eins og er, kenni þeim smíði. Þau elska það, bíða í röðum fyrir utan stofuna hjá mér fyrir tímann.

Ég er ekki með yfirdrátt og legg meira að segja fyrir. Ég slæ grasið berfættur og er nýlega komin með blæti fyrir moltugerð. Ég monta mig yfir moltunni minni og sýni gestum og gangandi inn í hana. 

Síðasta sumar ræktaði ég um tvö hundruð THC fríar kannabisplöntur og drekk ég afraksturinn á hverju kvöldi. Mér finnst það æðislegt og segi gestum og gangandi frá því.

Ég horfi á Netflix, mér finnst það nice. Um daginn horfði ég á heila seríu um skákkonu á þrem dögum. Svo sagði ég fólki frá því. 

Ég er meðalmaður en hef ekkert alltaf verið það. Ég hef upplifað stjórnleysi og logið. Ég hef verið með yfirdrátt og verið ábyrgðarlaus. Ég hef brugðist skyldum mínum og komið mér og öðrum í vandræði.

En í dag er eins og ég hafi náð að koma mér á annan stað. Það er eins og það sé ekkert að. Það er bara þögn og ég leita af óuppgerðu, einhverju veseni og ég finn það ekki. Það er þögn og kötturinn sefur. 

Hún sefur reyndar mjög mikið svo það er kannski ekki marktækt. Hún væri eflaust sofandi í ringulreið. Nema kannski ef hún fengi ekki mat. 

Hafið þið góðan dag meðbræður og systur.

Munið að hlusta eftir þögninni milli einda.

Höfundur er smíðakennari.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×