Skoðun

Há­lendið getur ekki beðið lengur

Auður Önnu Magnúsdóttir skrifar

Hvers vegna þarf að stofna þjóðgarð á hálendinu núna? Má það ekki bíða í nokkur ár svo ná megi þessari eftirsóttu „breiðu sátt” þar sem allir eru ánægðir? Svarið er því miður nei! Ýmsar ógnir steðja að hálendi Íslands og með því að klára málið síðar er hætt við að gildi og verðmæti hálendisins verði rýrt enn frekar. Til að ná sátt þurfa allir að slá af kröfum sínum. Við höfum Alþingi til að ljúka málinu í kjölfar upplýsandi umræðu. Stofnun Hálendisjóðgarðs er besta leiðin sem við þekkjum til varanlegrar verndar og sjálfbærrar nýtingar þjóðlendna á hálendinu.

Hálendið er auðlind og sameign þjóðarinnar

Með stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands er verið að vernda eina stærstu auðlind Íslands og stýra umgengni og nýtingu á henni. Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, hefur líkt stofnun þjóðgarðsins við það þegar Íslendingar færðu fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur. Hálendisþjóðgarði yrði stýrt með verulegri valddreifingu þar sem ákvarðanir yrðu teknar í svæðisstjórnum, í aðliggjandi sveitarfélögum, í stjórn þjóðgarðsins og á landsvísu af viðkomandi ráðherra. Þannig munu tæplega 100 einstaklingar, fulltrúar sveitarfélaga og félagsamtaka móta þær reglur sem koma til með að gilda. Þetta er mun lýðræðislegra fyrirkomulag en það sem við höfum í dag til að taka ákvarðanir um skipan mála á hálendinu. Í þessu felst ávinningur fyrir alla til langs tíma sem er mun verðmætari en þeir skammtímahagsmunirnir sem felast í því að litlir hópar nýti auðlindina á óskipulagðan og ósjálfbæran hátt með því sundurlausa stjórnfyrirkomulagi sem ríkir í dag.

Orkufyrirtækin vilja meira

Orkufyrirtæki ásælast það gríðarmikla afl sem býr á íslenska hálendinu. Sú raforka sem nú er framleidd á Íslandi kemur að langmestu leyti þaðan. Um 80% hennar fer síðan til stóriðju. En orkufyrirtækin vilja meira. Á sunnanverðu hálendinu hefur Landsvirkjun til dæmis ekki afskrifað hugmyndir um uppistöðulón við Þjórsárver, eina stærstu samfelldustu gróðurvin hálendsins. Í norðri eru upp hugmyndir um að virkja jökulárnar i Skagafirði og vatnasvið Skjálfandafljóts og á hálendinu miðju eru virkjanakostirnir Skrokkalda og Hagavatnsvirkjun. Ógnin af virkjunaráformum og eyðingu náttúruperla sem óhjákvæmilega fygir er því mjög raunveruleg og yfirvofandi á hálendinu. Þjóðgarður er besta vörnin gegn frekari ásælni í virkjanir á hálendinu.

Ósjálfbær landnýting

Gróður og jarðvegur á hálendinu er mjög viðkvæmur. Víða er enn beitt á illa farið land eins og niðurstöður úr Grólind hafa sýnt, nánar tiltekið landflæmi sem nemur fjórðungi Íslands. Markmið þjóðgarðs er m.a. sjálfbær landnýting sem þýðir að útrýma þarf ofbeit. Við megum ekki við því að tapa meiri gróðri eða jarðvegi vegna ósjálfbærrar landnýtingar. Þjóðgarður er vettvangur til að taka ofbeit og gróður- og jarðvegsvernd föstum tökum.

Ágangur ferðamanna og öryggi þeirra

Árið 2019 komu til Íslands 2 milljónir ferðamanna. 80% þeirra komu til Íslands fyrst og fremst til þess að njóta íslenskrar náttúru. Það gera 1,6 milljón á ári en líklegast mun ásóknin frekar aukast en minnka eftir Covid þegar fólk hefur fengið skilning á mikilvægi náttúrunnar og tengslum okkar við hana. Hálendið er bæði viðkvæmt og hættulegt heim að sækja. Tryggja verður dreifingu og öryggi ferðafólks á hálendinu þannig að hvorki náttúru- og menningarminjar né ferðafólkið sjálft hljóti skaða af. Sú umgjörð og þjónusta sem Hálendisþjóðgarður getur veitt yrði besta leiðin til þess að bjóða gestum okkar einstaka upplifun af hálendinu án þess að valda skaða á auðlindinni.

Hálendið klofið með uppbyggðum vegum og raflínum?

Víðerni eru óendanlega verðmæt í sjálfu sér, enda orðin sjaldgæf. Þau eru sérkenni hálendisins og eru ein og sér „stórkostleg og umbreytandi upplifun“ eins og heimspekingurinn góði Páll Skúlasonar skrifaði í tímamótarit sitt Hugleiðingar við Öskju. Að óbyggðum víðernum er sótt, m.a. með áformum um virkjanir, uppbyggða vegi og lagningu háspennulína. Stofnun þjóðgarðs mun styrkja viðstöðuna gegn þessari þróun.

Útivist, ekki aðeins fyrir útvalda

Markmið þjóðgarðs er að auka aðgengi allra að þeim djásnum sem hann hefur að geyma án þess þó að valda skaða á náttúru- og menningarminjum eða spilla möguleiknum til að upplifa öræfakyrrð og friðsæld. Útivist eflist og nær til breiðari hóps í Hálendisþjóðgarði þar sem fleiri geta notið - en um leið er dregið úr hættu á varanlegum spjöllum á viðkvæmri náttúru.

Aukin fjölbreytni starfa á landsbyggðinni

Sem betur fer eru margir staðir á landsbyggðinni í sókn og fólki fjölgar. Á öðrum stöðum fækkar íbúum og brýnt er að bregðast við. Mikilvægt er að sjá til þess að fjölbreyttar stoðir séu undir atvinnulífi um allt land. Þjóðgarður stuðlar að jákvæðri byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu sem byggir á sérstöðu viðkomandi svæðis og er því líklegri til þess að standa styrkur þrátt fyrir utanaðkomandi breytingar eins og verðfall á hrávörumörkuðum.

Hér eru bara nefnd nokkur dæmi þar sem þjóðgarður stuðlar að jákvæðri þróun, vernd og uppbyggingu. Nú er tímabært að hætta þrasa og þrefa. Allir sem komnir eru til vits og ára vita að það er lífsins ómögulegt að uppfylla allar óskir. Nú er tímabært að bræða saman þau mörgu ólíku sjónarmið sem fram hafa komið og það verkefni er nú á borði Alþingis. Þingmenn verða að hafa í huga að hún afskaplega raunveruleg, hættan af því að ýmsar ógnir rýri gæði hálendisins á óafturkræfan hátt. Þjóðgarður tekur utan um hálendið sem heild, verndar náttúru- og menningarminjar um leið og hann eykur aðgengi, bætir atvinnumöguleika og tryggir viðhald auðlindarinnar til framtíðar. Tíminn er núna, hálendið getur ekki beðið lengur.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landverndar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×