Breska ríkisútvarpið hefur það eftir lögreglunni í Katsina í Nígeríu að börnunum hafi verið rænt af vígamönnum þegar þau voru á leið heim til þorpsins Mahuta, eftir að hafa tekið þátt í trúarathöfn.
Þeim hafi svo verið sleppt í dag eftir skotbardaga á milli mannræningjanna annars vegar og öryggissveita og vopnaðra borgara hins vegar.
Þá segir lögregla að ræningjarnir hafi einnig tekið tólf kýr ófrjálsri hendi. Lögregla gaf þó ekkert upp um hverja væri að ræða í yfirlýsingu sinni.
Um er að ræða annað fjöldamannránið á börnum í Katsina á átta dögum. Á föstudag var 344 ungum drengjum sleppt, en þeir höfðu verið í haldi í nokkra daga. Boko Haram lýsti yfir ábyrgð á því mannráni.