Boðsmót Stöðvar 2 Sport í pílukasti hófst í gær þar sem átta fremstu pílukastarar landsins hófu leik. Úrslitin ráðast svo í beinni útsendingu í kvöld.
Grindvíkingarnir Pétur Rúðrik Guðmundsson og Björn Steinar Brynjólfsson mættust í fyrsta leiknum og þar hafði Pétur betur örugglega 5-1. Matthías Örn Friðriksson, ríkjandi Íslandsmeistari, hafði betur gegn hinum sextán ára gamla Alexander Þorleifsson, 5-4, í spennutrylli.
Ingibjörg Magnúsdóttir tapaði svo gegn Vitor Charrua, 5-2, og í lokaviðureign kvöldsins vann Hallgrímur Egilsson 5-1 sigri á hinum fimmtán ára gamla Alex Mána Péturssyni.
Útsending frá undanúrslitunum og úrslitunum hefst klukkan níu á Stöð 2 Sport í kvöld.