Skoðun

Ónýtir vegir á sunnanverðum Vestfjörðum

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Síðustu daga höfum við fylgst með fréttum af miklum slitlagsskemmdum á Bíldudalsvegi, á Mikladal og í Tálknafirði. Þessar fréttir koma líklega ekki á óvart þar sem Bíldudalsvegur í heild sinni var metin ónýtur fyrir nokkru. Þá hefur verið haft eftir svæðisstjóra Vegagerðarinnar að það kosti milljarð að koma veginum í samt lagt aftur. En hvað kostar að gera það ekki?

Þegar litið er til samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum erum við enn stödd á síðust öld og þarf ekki að fjölyrða frekar um það. Til þess að komast á milli byggðakjarna á svæðinu þarf að fara yfir fjallvegi sem eru erfiðir á veturna. Núverandi vegir eru engan veginn byggðir fyrir þá umferð sem þar er. Þungaflutningar eru miklir og almenn umferð hefur aukist vegna atvinnu og þjónustu. Þá eru lokanir á vegum algengar yfir veturna bæði á milli byggðarlaganna þriggja og á Kleifaheiði á Barðastrandavegi. Þessar lokanir hafa mikil áhrif, enda er um eitt vinnusóknarsvæði að ræða.

Jarðgöng er lausnin

Það þarf að skoða af alvöru áætlanir um jarðgöng milli byggðarkjarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Með tilliti til byggðaþróunar, daglegrar vinnusóknar og ekki síður vegna aukinnar umsvifa fiskeldis sem skila þjóðarbúinu tugi milljarða í útflutningstekjur þá þurfa samgöngur að vera skilvirkar, öruggar og heilsárs. Jarðgöng frá Patreksfirði yfir í Tálknafjörð yrðu rétt um 3.5 km. og myndu leysa af hólmi umferðamikinn og ónýtan veg um Mikladal. Fleiri jarðgöng eru möguleg og eiga vera á áætlun.

Það er dýrara fyrir þjóðarbúið að aðhafast ekkert í vegamálum á Bíldudalsvegi en að fara í uppbyggingu. Þá er ótalin sú slysahætta sem hlýst af því að hafa slæma vegi. Já vissulega kostar milljarða að byggja upp vegi, en ef þjóðarbúið hefur hug á að nýta sér ágóðann af mikilvægri útflutningsgrein sem stunduð er á svæðinu þarf að byggja upp góðar samgöngur. Áfram veginn.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×