Mun Guðmundur einnig bera ábyrgð á samskiptum við hagaðila, fjölmiðla og alþjóðleg CERT-teymi. Frá þessu er greint á vef Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) en Netöryggissveitin CERT-IS er sjálfstæð eining innan PFS. Hefur sveitin hefur það hlutverk að greina og upplýsa um netógnir, viðhafa ástandsvitund og samræma viðbrögð við netatvikum í netumdæmi Íslands.
Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri PFS, sagði í samtali við Fréttablaðið fyrir áramót að búið sé að fjölga starfsmönnum í sveitinni og að til standi að stórefla hana á næstu árum. Netárásum á einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir hefur farið fjölgandi og lýsti CERT-IS yfir óvissustigi fjarskiptageirans í fyrsta sinn hér á landi í september síðastliðnum. Sú aðgerð kom til í kjölfar hótana og fágaðrar netárásar á íslenskt fyrirtæki.
Guðmundur tekur til starfa í febrúar næstkomandi en fram kemur á vef PFS að hann sé með B.Sc próf í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands. Þá útskrifaðist hann árið 2008 með M.Sc próf í fjarskiptaverkfræði, með sérhæfingu í net- og upplýsingaöryggi, frá Háskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi. Guðmundur hefur þrettán ára reynslu af störfum á fjarskiptamarkaði.
Guðmundur starfaði fyrir Burðarnet og Farsímakjarna Vodafone til ársins 2013 og síðan sem deildarstjóri Netlausna Nýherja til 2017. Þá starfaði hann á árunum 2017-2019 sem svæðisstjóri fyrir net- og öryggisdeild 5G þróunarumhverfa fyrir Ericsson í Gautaborg ásamt því að sitja í global arkitektaráði netöryggismála fyrir sömu deild.
Hann flutti aftur heim til Íslands árið 2019 og hefur starfað síðan sem deildarstjóri Net- og Samskiptalausna Origo.