Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lyfjastofnun Evrópu nú skömmu eftir hádegi. Þá er búist við að markaðsleyfi fyrir bóluefninu fáist á Íslandi strax og leyfið liggur fyrir í Evrópu, einnig í dag.
Bóluefni Moderna er annað bóluefnið gegn kórónuveirunni sem Lyfjastofnun Evrópu samþykkir en bóluefni Pfizer og BioNTech fékk skilyrt markaðsleyfi í Evrópu í desember. Bólusetningar hófust í álfunni fyrir áramót.
Bólusetningar með Moderna-bóluefninu eru þegar hafnar í löndum á borð við Bandaríkin og Kanada. Í tilkynningu Lyfjastofnunar Evrópu segir að bóluefnið sé öruggt og muni reynast enn eitt vopnið í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn.
Rannsóknir á bóluefni Moderna sýna að það veiti um 94 prósent vörn gegn veirunni. Bóluefnið er gefið í tveimur skömmtum, líkt og bóluefni Pfizer, og byggir einnig á svokallaðri mRNA-tækni.
Ísland hefur tryggt sér 128 þúsund skammta af bóluefni Moderna sem duga fyrir 64 þúsund manns. Tilkynnt var í gær að von væri á samtals fimm þúsund skömmtum af bóluefninu til landsins í janúar og febrúar, sem duga fyrir 2.500 manns. Eftir febrúar er gert ráð fyrir að afhending verði hraðari.
Fréttin hefur verið uppfærð.