Í Bandaríkjunum óttast ráðamenn að nýtt afbrigði, sem smitast auðveldar á milli fólks og greindist fyrst í Bretlandi, verði ráðandi afbrigðið þar í landi fyrir mars. Það afbrigði virðist ekki valda verri veikindum en mun leiða til frekari dauðsfalla samhliða fjölgun smitaðra.
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur varað við því að þjóðin sé mögulega að fara inn í erfitt tímabil þar sem smituðum gæti fjölgað með veldisvexti, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Samkvæmt sérfræðingum sem AP hefur rætt við eru ekki uppi vísbendingar um að bóluefni virki ekki á nýju afbrigðin. Hins vegar hafi vísbendingar sést um að ný afbrigði gætu gert skimun erfiðari og dragi sömuleiðis úr virkni mótefnalyfja í meðferð vegna Covid-19.
Kapphlaup við tímann og afbrigði
Dr. Pardis Sabeti sagði heiminn í kappi við tímann því veiran gæti rambað á stökkbreytingu sem gerði hana mun hættulegri.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvatti til þess á föstudaginn að eftirlit eftir nýjum afbrigðum yrði aukið um heiminn og erfðamengi veirunnar raðgreitt meira.
Fyrsta afbrigðið af Covid-19 greindist í mars, nokkrum mánuðum eftir að veiran greindist fyrst í Kína. Það afbrigði var kallað D614G og dreifðist auðveldar en upprunalegi stofninn. Nú er það afbrigði ráðandi í heiminum. Afbrigðum virðist þó hafa fjölgað tiltölulega hratt að undanförnu.
Einn sérfræðingur sem AP vitnar í sagði nýverið að það að minnst þrjú ný afbrigði hefðu greinst frá því í september gæfi til kynna fleiri afbrigði væru líkleg til að skjóta upp kollinum. Þau afbrigði greindust fyrst í Bretlandi, Suður-Afríku og Brasilíu.
Nýtt afbrigði í Þýskalandi
Í gær bárust fregnir af því að enn eitt afbrigði hefði greinst í Þýskalandi. Það greindist meðal 35 sjúklinga á sjúkrahúsi í bænum Garmisch-Partenkirchen. Það afbrigði hefur þó ekki verið raðgreint enn.
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, sagði nýverið að raðgreining væri ekki nægjanleg þar í landi og þar þyrfti að gefa í.