Sobol er aðgerðasinni sem var meinað að bjóða sig fram til borgarstjórnar Moskvu árið 2019 og var hún þá í forsvari fyrir umfangsmikil mótmæli í borginni.
Samkvæmt frétt Moscow Times hefur Georgy Alburov, yfirmaður and-spillingaramtaka Navalnís (FBK) verið handtekinn, auk annarra sem starfa hjá samtökunum.
Þeim hefur verið sleppt úr haldi lögreglu en öll eiga þau von á háum sektum og jafnvel stuttri fangelsisvist fyrir að kalla eftir mótmælum.
AFP fréttaveitan segir að saksóknarar hafi varað fólk við því að taka þátt í mótmælunum. Það væri ólöglegt og á sama tíma hafa yfirvöld í Rússlandi kallað eftir því að samfélagsmiðlafyrirtæki eins og TikTok, fjarlægi færslur þar sem fólk er hvatt til að taka þátt í mótmælunum.
Forsvarsmenn FBK hafa heitið því að borga sektir fólks fyrir að taka þátt í mótmælum.
Þau byrjuðu að boða til mótmæla eftir að Navalní var handtekinn við komuna til Rússlands frá Þýsklandi fyrr í mánuðinum. Hann var svo úrskurðaður í 30 daga gæsluvarðhald á meðan rétta á yfir honum vegna meints brots á skilorði.
Sjá einnig: Navalní úrskurðaður í gæsluvarðhald
Með því að fara til Þýskalands á Navalní að hafa brotið gegn skilorðsdómi sem rann út í lok síðasta árs. BBC segir að það mál fari fyrir dómara þann 2. febrúar.
Navalní var fluttur í dái til Þýskalands eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu novichok í Rússlandi í sumar.
Vísindamenn í Þýskalandi, Svíþjóð og Frakklandi, auk vísindamanna Efnavopnastofnunarinnar, hafa staðfest að eitrað var fyrir Navalní með novichok, eitrið sem þróað var í Sovétríkjunum.
Navalní hefur sakað Valdimir Pútín, forseta Rússlands, um að bera ábyrgð á eitruninni.
Mótmælin á morgun eiga einnig að snúast um stærðarinnar höll sem Navalní hefur sakað Pútín um að eiga.
And-spillingarsamtökin FBK birtu langt myndband eftir að Navalní var handtekinn í síðustu viku, þar sem því er haldið fram að Pútín hafi látið byggja höllina fyrir sig við strendur Svartahafs.
Myndbandið byggir á rannsókn FBK og í því fer Navalní yfir það hvernig höllin á að hafa verið byggð fyrir fé sem Pútín á að hafa fengið frá rússneskum auðjöfrum.
Talsmaður Pútíns segir ekkert til í því að Pútín eigi höllina sem um ræðir.
Í myndbandinu lýsir Navalní höllinni sem litlu konungsríki sem vaktað sé af Leyniþjónustu Rússlands, FSB. Þar megi finna spilavíti, neðanjarðar hokkívöll, vínekru og ýmislegt annað.