Myndbandið fjallar um Óðinstorg og framkvæmdirnar þar sem hafa breytt ásýnd torgsins töluvert. Myndbandið ber yfirskriftina „Óðinstorg, bruðl og spilling,“ og gagnrýnir hópurinn þar framkvæmdirnar.
„Framkvæmd upp á 657 milljónir króna. Vissulega var skipt um lagnir og sett upp snjóbræðslukerfi fyrir utan heimili borgarstjóra en torgið er umfram allt gæluverkefni sem hefur þann eina tilgang að útrýma fjölda bílastæða fyrir íbúa, nágranna og gesti hótelsins sem þurfa að leita í nærliggjandi götur eftir stæðum sem eru af skornum skammti,“ segir í myndbandinu.
Þar á eftir er því varpað fram að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hafi keypt þrjú bílastæði af borginni án útboðs.
„Flest er rétt með haft en ein alvarleg rangfærsla hefur komið fram, að Dagur B. Eggertsson hafi keypt þrjú bílastæði af borginni án útboðs, þetta er rangt og þar sem mitt nafn er í kredit lista í lok myndbandsins bið ég borgarstjóra og aðra aðila málsins afsökunar,“ segir í Facebook-færslu sem Bolli birti á síðunni Opnum Laugaveginn og Skólavörðustíginn.
ÉG BIÐST VELVIRÐINGAR
Hann skrifar að hann hafi aldrei verið „ósannindamaður“ og hafi honum verið sagt að allt sem kæmi fram í myndbandinu kæmi frá áreiðanlegum heimildarmönnum. Hann segist vera búinn að óska eftir því að myndbandið verði fjarlægt af vefnum.