Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að allt of margir væru að sækja fólk út á flugvöll. Einn af hverjum þremur og þar með væri verið að brjóta reglur um ferðalög frá landamærastöð í gistiaðstöðu þar sem farþegar þurfa að dvelja í sóttkví.
„Þetta voru sláandi tölur,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á fundinum í dag. Hve margir væru ekki að virða reglur um sóttkví. Hann bað fólk vinsamlegast um að virða reglur og hætta að sækja fólk út á flugvöll.
Þá nefndi Jón Pétur að dæmi væru um að einstaklingar væru ekki að skrá réttar upplýsingar í forskráningarform sem torveldi vinnu lögreglu við að fylgja eftir að einstaklingar dvelji í sóttkví þar sem þeir segjast ætla að vera.