Þetta var fullyrt í útvarpsþættinum Tot Costa í Catalunya Radio síðastliðinn föstudag.
Aron mun samkvæmt spænska miðlinum þegar hafa skrifað undir samning þess efnis að vera áfram hjá Barcelona en bíða þess að nýr forseti Barcelona skrifi undir samninginn.
Samkvæmt upplýsingum Vísis hefur Aron þó ekki skrifað undir neinn samning og er ekki útséð með það hvort hann verði áfram hjá Barcelona eða rói á önnur mið.
NOTÍCIA. Aaron Palmarsson seguirà al Barça (via @rsalmurri)
— Tot costa (@totcosta) February 26, 2021
Club i jugador han acordat la renovació i Palmarsson continuarà, la temporada vinent, al Barça
L'acord, signat per l'islandès, està pendent de la firma del president entrant
Més, al @totcosta a les 19h pic.twitter.com/NN6HzZ69Qc
Forsetakosningar hjá spænska stórveldinu fara fram á sunnudaginn. Miðað við fullyrðingarnar í Tot Costa gæti því málið verið formlega frágengið þegar Aron spilar með íslenska landsliðinu gegn Ísrael ytra 11. mars, í undankeppni EM.
Einn sá dýrasti í sögunni þegar hann fór til Barcelona
Aron gekk í raðir Barcelona í október 2017 eftir að hafa staðið í miklu stappi við þáverandi vinnuveitendur sína í ungverska félaginu Veszprém. Hann skrifaði þá undir samning við Barcelona til fjögurra ára, eða til næsta sumars, eftir að Börsungar höfðu greitt Veszprém upphæð sem talin var gera Aron að einum allra dýrasta leikmanni sögunnar.
Í fjölmiðlum var kaupverðið sagt á bilinu 700.000 til ein milljón evra en Veszprém fullyrti í yfirlýsingu að það væri hærra.
Aron hefur verið afar sigursæll með liði Barcelona sem hefur haft yfirburði á Spáni síðustu ár. Í fyrra varð hann til að mynda Spánarmeistari í þriðja sinn á þremur árum, og þar með landsmeistari níunda árið í röð eftir að hafa orðið ungverskur og þýskur meistari árin á undan.
Aron komst á síðustu leiktíð með Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, sem fram fór um síðustu jól vegna kórónuveirufaraldursins, en varð þar að sætta sig við silfurverðlaun eftir tap gegn sínu gamla liði Kiel.