Það eru Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem standa að rannsókninni en samkvæmt niðurstöðum hennar hefur fjórðungur stúlkna á aldrinum 15 til 19 ára verið beittur ofbeldi að minnsta kosti einu sinni.
Tíðni ofbeldis gegn konum er hins vegar hæst í aldurshópnum 30 til 39 ára.
Ef tölfræði er varðar ofbeldi sem er ekki beitt af hálfu maka er tekin með í reikninginn áætlar WHO að um þriðjungur kvenna 15 ára og eldri muni upplifa líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni.
Þetta jafngildir því að 736 til 853 milljónir kvenna séu beittar ofbeldi.
Rannsóknin náði til 161 ríkis á tímabilinu 2000 til 2018. Niðurstöður hennar endurspegla því ekki fjölgun í málaflokknum vegna Covid-19. Þá telur WHO að raunveruleg tíðni ofbeldis sé mun hærri en rannsóknin náði til dæmis ekki til ofbeldis og áreitni í netheimum.
Tíðni ofbeldis í garð kvenna er meiri í fátækari ríkjum heims en í fimm ríkjum; Kiribati, Fiji, Papua Nýju Gíneu, Bangladesh og á Solomon-eyjum, reyndist meira en helmingur kvenna hafa verið beittur ofbeldi af maka að minnsta kosti einu sinni.
Claudia García-Moreno, sem leiðir baráttu WHO gegn kynbundnu ofbeldi, segir að niðurstöðurnar ættu að vera vakning fyrir stjórnvöld. Hún segir nauðsynlegt að draga úr fordómum og brjóta niður stoðir kynjamisréttis.
Eitt brýnasta verkefni sé að tryggja öryggi stúlkna í skólum. Þá sé mikilvægt að efla fræðslu um heilbrigð sambönd, sem byggja á jafnrétti og gagnkvæmri virðingu.