Svandís Svavarsdóttir sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag að farið verði eftir kerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu eins og hefur verið kynnt áður.
„Litamerking í löndum verður leiðandi í því hvaða ráðstafanir við erum með fyrir hvern hóp,“ segir hún.
Séu lönd græn eða gul þá mun duga að framvísa neikvæðu PCR-prófi og fara í skimun við komuna til landsins. Ekki verður þörf á fimm daga sóttkví og skimun að henni lokinni. Séu lönd rauð munu farþegar enn þurfa að fara í tvöfalda skimun og sóttkví á milli. Bólusetningar- eða mótefnavottorð verða tekin gild frá öllum löndum.

Nokkur græn og gul lönd
Síðustu vikur hefur Ísland verið eitt fárra landa sem ekki er rautt á korti Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar en á korti frá 11. mars sést að fleiri lönd hafa bæst í hópinn.
Ef litakóðakerfið væri í gildi í dag mættu farþegar frá til dæmis stærstum hluta Noregs, Finnlandi, Danmörku, Írlandi og Portúgal koma til landsins án þess að fara í fimm daga sóttkví.
Þá sagði heilbrigðisráðherra að breytingar á landamærum verði ræddar á næstu dögum sem verða unnar eftir minnisblaði sóttvarnalæknis.
„Þær munu fjalla um sýnatökur á börnum og hvernig sóttvarnahús verði notað meira en áður,“ segir Svandís.