Um lokaðan dal sé að ræða sem sé fjarri byggð og á bak við fjöll. Dalurinn er norðan við Borgarfjall og austan við Fagradalsfjall þar sem skjálftavirknin hefur verið hvað mest síðustu daga að sögn Páls.
„Þetta er í lokuðum dal þannig að þarna má mikið hraun renna áður en það fer að fara eitthvað frá upptökunum. Þetta er einhver heppilegasti staður á Reykjanesskaga fyrir hraungos,“ segir Páll.
Dalurinn sé djúpur og afrennslislaus. Því þurfi að gjósa talsvert áður en hraunið fari að renna eitthvað í burtu.
Byggðarlög á Reykjanesskaga eru því ekki í neinni hættu vegna hraunflæðis en Páll segir að hugsanleg gasmengun geti orðið vegna gossins.
„Það fer þá eftir vindátt. Þess vegna er aðeins verið að vara fólk við í Þorlákshöfn, það er næsti þéttbýlisstaður í vindstefnunni,“ segir Páll.
Aðspurður hvort þetta komi honum á óvart segir Páll þetta alls ekki koma á óvart. Þetta hafi verið ein af þeim sviðsmyndum sem búist hefur verið við undanfarnar þrjár vikur síðan jarðskjálftavirknin hófst við Fagradalsfjall og kvika fór að flæða inn í kvikugang sem myndaðist milli Fagradalsfjalls og Keilis.