Skoðun

Breytum orku í græn­meti

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar

Það hafa lengi verið viðtekin sannindi á Íslandi að hér sé gnægð umhverfisvænnar orku. Á undanförnum misserum höfum við sem samfélag unnið markvisst að því að nota þessa orku til að minnka kolefnisspor okkar. Fleiri rafmagnsbílar keyra um göturnar og fleiri og fleiri vélar og tæki nota rafmagn sem orkugjafa fremur en kolefnaeldsneyti. Framleiðsla innlendra kolefnisorkugjafa eins og metans og lífdísels er einnig hafin.

Á undanförnum árum hefur umræðan um kolefnisspor matvæla orðið meira áberandi. Þar blandast líka inn í umræðan um kolefnisjöfnun framleiðslunnar og mikilvægi þess að draga úr neyslu matvæla með stórt kolefnisspor á kostnað þeirra sem hafa minna spor. Bændasamtökin hafa sett sér metnaðarfulla stefnu í þessu efni í „Umhverfisstefnu Landbúnaðarins 2020-2030“, þar sem gert er ráð fyrir að íslenskur landbúnaður verði kolefnishlutlaus 2030.

Með því að tengja saman orkunýtingu og innlendan landbúnað getum við slegið tvær flugur í einu höggi. Við getum stóraukið innlenda matvælaframleiðslu, ekki síst grænmetisræktun, með því að nota rafmagn og jarðhita í miklu meira mæli til framleiðslunnar. Ég hef áður skrifað og rætt um af hverju við gerum ekki bændum kleift að kaupa rafmagn eða orku yfirleitt á svipuðu verði og stóriðja fær aðgang að orkunni. Væri ekki skoðunar virði að samtök bænda í samvinnu við orkufyrirtækin tækju höndum saman til að gera átak í þessum efnum? Hvernig væri að við skoðuðum hve stór heildarkaupandi garðyrkjan í landinu er þegar metið er verð á rafmagni eða annarri orku til hennar?

Sem samfélag eigum við bæði að leita eftir því hvernig við getum bætt hag okkar en ekki síst hvernig við höfum jákvæð áhrif á loftslag og umhverfismál á heimsvísu. Með aukinni innlendri matvælaframleiðslu á umhverfisvænan hátt gætum við orðið sjálfum okkur næg í mun meira mæli, og auk þess komið þeim skilaboðum til milljóna ferðamanna á komandi árum að við sem samfélag meinum það sem við segjum um umhverfismál. Auk þeirra jákvæðu skilaboða sem í því fælust myndu skapast forsendur til lægri framleiðslukostnaðar og þar með ódýrari og heilnæmari matarkörfu.

Höfundur er þingmaður VG í Kraganum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×