Í upphafi leiksins, sem fór fram á Lucas Oil leikvanginum í Indianapolis, hrundi dómarinn Bert Smith í gólfið við endalínuna, nálægt varamannabekk Gonzaga-liðsins. Höfuð Smiths small í gólfinu þegar hann féll við.
Bert Smith, veteran NCAA official, just collapsed on the court. He's now on his feet. pic.twitter.com/BOhBvJT01U
— Timothy Burke (@bubbaprog) March 30, 2021
Viðstöddum var eðlilega brugðið og Smith fékk strax aðhlynningu. Leikmönnum Gonzaga var sagt að líta undan meðan Smith lá í gólfinu.
Smith lá eftir í um fimm mínútur áður en hann stóð upp, fór á börur og var svo færður til búningsherbergja. Tony Henderson hljóp í skarðið fyrir Smith og leikurinn fór í kjölfarið aftur af stað.
Referee Bert Smith was stretched off after collapsing in the USC-Gonzaga game.
— Bleacher Report (@BleacherReport) March 30, 2021
Hope he's okay pic.twitter.com/WZXo7V7nbv
Í útsendingu TBS frá leiknum var greint frá því að Smith hefði svimað og verið hálf ringlaður. Hann fór ekki á spítala eftir atvikið.
„Hann er frábær dómari og frábær náungi,“ sagði Mark Few, þjálfari Gonzaga, eftir leikinn.
„Mér var bara brugðið og óttaðist um hann. Ég athugaði aðeins með hann og sá að hann talaði. Ég bað stuttlega fyrir honum og óskaði honum alls hins besta.“
Gonzaga vann leikinn, 85-66, og komst þar með í undanúrslit úrslitakeppni háskólaboltans, marsfársins svokallaða.
Gonzaga mætir UCLA í undanúrslitunum marsfársins. Í hinum undanúrslitaleiknum eigast Baylor og Houston við. Undanúrslitin fara fram á laugardaginn og úrslitaleikurinn á mánudaginn.