Guardian greinir frá því að hinn 83 ára Brierley, sem efnaðist með umsvifamiklum fjárfestingum á áttunda og níunda áratugnum, hafi gengist við þremur ákæruliðum á hendur sér. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.
Fallið var frá fjórtán öðrum ákæruliðum á hendur Brierley í kjölfar játningar hans. Hann gekkst meðal annars við því að hafa haft í fórum sínum myndir sem sýndu tveggja ára stúlku á kynferðislegan hátt.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir vinnu hafna við það að svipta Brierley riddaratign sem honum var veitt árið 1988. Elísabet Englandsdrottning þarf að leggja blessun sína yfir ákvörðunina um að svipta Brierley riddaratign, svo hún nái fram að ganga.