Notkun bóluefnis AstraZeneca var stöðvuð tímabundið í Danmörku og fleiri Evrópuríkjum, þar á meðal Íslandi, í mars eftir að tilkynnt var um nokkur tilfelli sjaldgæfra blóðtappa hjá fólki sem hafði verið bólusett með efninu.
Lyfjastofnun Evrópu gaf það svo út í síðustu viku að áfram væri mælt með notkun bóluefnisins og að ávinningur af efninu vegi þyngra en áhættan. Blóðtappatilfellin væru ákaflega sjaldgæf en þó væru möguleg tengsl milli þeirra og bóluefnisins.
Flest ríki sem hættu tímabundið notkun bóluefnis AstraZeneca hafa hafið bólusetningar með efninu að nýju. Það höfðu Danir hins vegar ekki gert - og munu ekki gera úr þessu, samkvæmt fréttum dönsku miðlanna Politiken og TV 2.
Heilbrigðisyfirvöld í Danmörku hafa boðað til blaðamannafundar vegna bóluefnis AstraZeneca klukkan 14 að dönskum tíma í dag. Samkvæmt frétt Politiken hafa Danir samið um kaup á 2,4 milljónum skammta af bóluefni AstraZeneca. Bólusetningu gegn kórónuveirunni í Danmörku mun seinka um nokkrar vikur vegna þessa.
Janssen á ís
Politiken og TV 2 greina jafnframt frá því að bólusetningu með bóluefni Janssen verði frestað tímabundið í Danmörku vegna tilkynninga um sambærileg blóðtappatilfelli. Fyrstu skammtar af efninu, rúmlega 38 þúsund talsins, komu til Danmerkur í morgun.
Janssen tilkynnti í gær að fyrirtækið hygðist fresta dreifingu efnisins í Evrópu. Ákvörðunin var tekin eftir að bandarísk heilbrigðisyfirvöld stöðvuðu tímabundið notkun bóluefnisins vegna áðurnefndra blóðtappatilkynninga.
Loks var greint frá því í morgun að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hygðist ekki framlengja samninga sína við framleiðendur svokallaðra genaferjubóluefna á borð við AstraZeneca og Janssen (Johnson & Johnson) sem renna út í árslok. Sambandið muni þess í stað leggja áherslu á kaup á svokölluðu mRNA-bóluefni, líkt og frá Pfizer og Moderna.
Fréttin hefur verið uppfærð.