Erlent

Bréf ritað um borð í Titanic seldist á tugi milljóna

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
„Þetta er glæsilegt skip en ég skal ekki dæma fyrr en að för lokinni,“ skrifaði ofurstinn meðal annars í bréfið.
„Þetta er glæsilegt skip en ég skal ekki dæma fyrr en að för lokinni,“ skrifaði ofurstinn meðal annars í bréfið. AP

Bréf ritað af einum þekktasta eftirlifanda Titanic-sjóslyssins seldist fyrir 51 milljón króna á uppboði í Bretlandi í gær. 

Hinn bandaríski Archibald Gracie ofursti skrifaði bréf og dagsetti þann 10. apríl 1912, daginn sem skipinu var ýtt úr vör í fyrsta sinn.

Bréfinu er lýst sem táknrænum fyrirboða fyrir því sem koma skyldi en í því skrifar Gracie til kunningja að hann hugðist ekki að leggja dóm á skipið fyrr en að ferðinni lokinni. BBC fjallar um málið. 

Bréfið var póstlagt þegar skipið kom við í Queenstown á Írlandi þann 11. apríl. Það var stimplað í London daginn eftir. 

Eins og kunnugt er sökk Titanic þann 14. apríl 1912 með þeim afleiðingum að um 1500 af 2200 farþegum létust. 

Gracie, sem dvaldi í fyrsta farrými skipsins, lifði slysið af. Hann skrifaði í framhaldinu bók að nafni Sannleikurinn um Titanic, þar sem hann rak minningar sínar af atburðarásinni. 

Þrátt fyrir að hafa lifað af slasaðist hann verulega og þjáðist af eftirköstum ofkælingar. Hann féll í dá í lok árs 1912 og lést af völdum fylgikvilla tengdum sykursýki skömmu síðar.

Búist var við að bréfið myndi seljast á að hámarki sextíu þúsund pund en óþekktur kaupandi bauð aftur á móti 300 þúsund pund í bréfið, sem samsvara 51 milljón króna. Uppboðshaldarinn sagði ekkert sem ritað var um borð á Titanic hafa selst á jafn háu verði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×