Skoðun

Sam­hæfð sund­fimi (e. synchronized swimming)

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar

Sveitarfélögin vinna saman á mörgum sviðum

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga margt sameiginlegt og vinna saman að mörgum verkefnum. Sumum finnst þau mættu vinna meira saman, jafnvel að einhverju öðru en þeim verkefnum sem eru skylduverkefni eins og t.d. sorphirðu og slökkviliði.

Hagsmunir íbúanna

Hagsmunir íbúanna eru nefnilega þeir að þau vinni saman að sem flestu, að ekki séu hindranir á milli þeirra, í þjónustu, aðgengi að afþreyingu eða samgöngum. Að þau vinni saman að virkum samgöngum eins og hjóla og göngustígum. Þetta þarf ekki að hafa neitt með það að gera að sveitarfélögin geti verið sjálfstæðar einingar í sumu, bara að þau teygi sig í átt til íbúanna með samvinnu í þjónustuþáttum sem skipta íbúana máli í daglegu lífi.

Íþróttastarf er vettvangur sem sveitarfélögin eru sterk í og þau kosta flest umtalsverðum upphæðum til þess. Börn og ungmenni geta farið á milli sveitarfélaga og stundað æfingar hjá félagi í nágrannasveitarfélagi. Þetta finnst okkur flestum sjálfsagt. Svipað á víða við um tónlistar og listnám, og einnig um margskonar annað tómstundastarf.

Samræmt sundkort

Svona ætti þetta líka að vera þegar kemur að sundlaugunum. Væri ekki frábært ef sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu væru með samræmt sundkort. Afsláttarkort eins og þau eru flest með hvort eð er. Þetta gætu bæði verið fjölskyldukort og einstaklingskort. Íbúar gætu þá farið á milli lauga og kynnst lauginni í næsta byggðarlagi eða þar næsta. Án þess að það leiddi til verulegra útgjalda. Sundkort frá einum gilti alls staðar, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum öll að hreyfa okkur, og sundferð er ágætis leið fyrir fjölskyldur og vini til að gera eitthvað saman án umtalsverðs kostnaðar. Ég beini því hér með til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að drífa í þessu fyrir sumarið, í seinasta lagi fyrir haustið. Það væri sannarlega skemmtileg viðbót við annars ágætt samstarf þeirra á mörgum sviðum.

Höfundur er þingmaður VG í Kraganum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×