Landsbankinn er umsjónaraðili útboðsins og stendur fyrir kynningunni sem hægt verður að fylgjast með í beinu streymi í spilaranum hér fyrir neðan. Stjórn Síldarvinnslunnar kynnti í febrúar að til stæði að skrá félagið í Kauphöll Íslands og er útboðið liður í því ferli.
Útboðið hefst klukkan 10 á mánudag og lýkur klukkan 16 miðvikudaginn 12. maí. Áætlað er að niðurstöður útboðsins verði tilkynntar föstudaginn 14. maí og að fyrsti viðskiptadagur með hluti Síldarvinnslunnar hf. á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland verði 27. maí næstkomandi.
Þrír stærstu núverandi hluthafar sjávarútvegsfyrirtækisins eru Samherji með 44,64% hlut, Kjálkanes með 34,23% og Samvinnufélag útgerðarmanna með 10,97%. Síldarvinnslan er þriðja stærsta útgerðarfyrirtæki landsins á eftir Brim og Samherja.