Starfsfólk Skógræktar Reykjavíkur fór um svæðið í dag til að meta skemmdir. Slökkviliðið áætlar að rúmlega tveir ferkílómetrar gróðurlendis hafi brunnið eða um 200 hektarar og blasti sviðin jörð því víða við í dag.
„Verðmætasta svæði Heiðmerkur þar sem að skógurinn er hvað hæstur hann slapp en hér höfðu verið mjög miklar gróðursetningar á síðustu árum. Við erum með landnemaspildur og það eru heilmargir sjálfboðaliðar sem að hafa verið að gróðursetja í þágu loftlags og skógræktar á Íslandi. Við eigum eftir að fara yfir þau svæði og hvort að það sé skemmt. Kjarnastígarnir í Heiðmörk virðast hafa sloppið, bæði Vífilstaðahlíð, Furulundur og Ríkishringurinn sem margir þekkja,“ Auður Kjartansdóttir framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.

„Þetta er örugglega stærsti svona bruninn í svona kjarrlendi eða skógi sem við höfum tekist á við. Við höfum náttúrulega brunann á Mýrum hér forðum daga sem að náttúrulega var geysistórt svæði en það var svona meira mosi og jarðvegur en þetta er náttúrulega skógarlendi. Þetta er útivistarsvæði höfuðborgarbúa og þetta er sá stærsti sem við höfum lent í hér,“ segir Birgir Finnsson varaslökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Hann segir að þegar mest hafi verið í gær hafi verið um hundrað manns á svæðinu við slökkvistörf. Bruninn varð að hluta til á vatnsverndarsvæði en koma tókst í veg fyrir að eldurinn bærist á viðkvæmustu svæðin þar.
Búist er áfram við þurru veðri næstu daga og er fólk hvatt til að fara varlega með eld úti í náttúrunni.