
Það fór ekki framhjá ferðamönnum á gosstöðvunum í gær að vesturhlíðar Geldingadala voru allar brennandi. Þar loguðu gróðureldar og lagði í raun meiri blámóðu af þeim heldur en frá gosinu sjálfu, eins og sjá mátti í fréttum Stöðvar 2.
„Jú, það er lokað í dag. Það eru svo miklir gróðureldar núna og þann reyk leggur yfir göngustígana,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum.

Athygli vekur hvað gróðureldarnir kvikna langt frá gígnum en eftir að eldstöðin breytti um ham með hærri gósstrókum tók logandi gjall að berast lengra frá henni og voru ferðamenn að fá yfir sig gjóskuflyksur á gönguleið í yfir kílómetra fjarlægð.
„Þær eru að berast svolítið langt með vindi og töluverður hiti í þeim þegar þær lenda þannig að þær eru að brenna þarna svæði,“ segir Rögnvaldur.

En það er ekki jarðeldurinn heldur erfiðar göngubrekkur sem hafa verið að valda slysum.
„Tvö og þrjú ökklabrot á dag, - eða mjög slæm slys, þannig séð. Þá er þetta bara slysavarnamál að koma þessu í lag,“ segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Verkfræðistofunni Eflu, en hann hefur unnið að endurbótum á gossvæðinu.

Fyrir helgi var aðalgönguleiðin bætt með því að skera nýjan stíg í neðstu brekkuna með þægilegum gönguhalla.
„Það var bara mikill munur strax um helgina hvað þetta rúllaði allt miklu léttara þarna.“
Haldið var áfram strax í dag að skera fláa í næstu brekku fyrir ofan sem liggur um gil.
„Og bara um miðja vikuna verður komið álíka spor upp á fjallsbrúnina.“

Síðan verður haldið áfram að lagfæra gönguleiðina.
„Bara svona grjóthreinsað og unnið með það efni sem er á staðnum þar í svona aðalatriðum.“
Þá er verið að undirbúa ný bílastæði í Nátthagakrika neðan fyrstu brekkunnar.

„Þar með í raun styttist gangan um svona 1,2 til 1,3 kílómetra hvora leið, miðað við í raun núverandi staðsetningu sunnan við Suðurstrandarveg."

„Það er mjög mikið af fólki þarna sem er í raun tiltölulega óvant göngufólk, sem er að koma þarna. Svo þegar líður inn í sumarið og við förum að fá túristana þá eykst það bara ennþá meir,“ segir Jón Haukur Steingrímsson hjá Eflu.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: