Haukar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn með stórsigri á liðinu í 2. sæti Olís-deildarinnar, FH. Í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport var birt sérstakt meistaramyndband til heiðurs Haukum sem sjá má hér að neðan.
Enn eru tvær umferðir eftir af deildinni en Haukar eru með níu stiga forskot á FH, sem reyndar á leik til góða. Yfirburðir Hauka hafa því verið umtalsverðir í vetur og ekki öfundsvert hlutskipti fyrir það lið sem þarf að mæta þeim í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í sumar.
Haukar hafa nú unnið tólf deildarmeistaratitla frá aldamótum, og hafa skal í huga að deildarmeistarar voru ekki krýndir á árunum 2006-2008. Frá og með árinu 2000 hafa þeir tíu sinnum orðið Íslandsmeistarar en reyndar eru fimm ár liðin frá þeim síðasta og í millitíðinni hafa Valur, ÍBV og Selfoss landað titlinum.