Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands um gasdreifingu hefur verið hæg breytileg átt og gæti því gasmengun dreifst víða um Reykjanesskaga. Einnig eru líkur á gassöfnun nærri gosstöðvunum. Það verður norðvestan 5-8 m/s eftir hádegi í dag og þá berst gasið til suðausturs frá eldstöðvunum.
Miðað við langtímaspá má búast við því að þessi skilyrði gætu komið aftur upp og er því almenningur hvattur til að fylgjast með loftgæðum á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og á vef Umhverfisstofnunar. Þar má sjá kort yfir staðsetningu loftgæðamælistöðva í Reykjavík og þar er einnig hægt að fylgjast með styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) og annarra efna.