David hefur harðneitað þeim ásökunum og boðist til að gangast undir fíkniefnapróf sem Samband evrópskra sjónvarpsstöðva ætlar að láta hann gera. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef EBU.
„Við erum meðvituð um vangaveltur varðandi myndbandsupptöku af ítölsku sigurvegurunum úr Græna herberginu í gær. Sveitin hefur harðneitað ásökunum um fíkniefnanotkun og söngvarinn sem um ræðir hefur boðist til þess að gangast undir fíkniefnapróf þegar hann kemur heim,“ segir í yfirlýsingunni.
„Þau óskuðu eftir þessu strax í gærkvöldi en EBU gat ekki orðið við þeirri beiðni strax. Sveitin, umboðsmaður hennar og sá sem fer fyrir hópnum hafa lýst því yfir að engin fíkniefni hafi verið til staðar í Græna herberginu og segja að glas hafi brotnað á borðinu sem söngvarinn hafi verið að sópa í burtu.“
Sambandið segist geta staðfest það að glas hafi brotnað á borði Ítalíu í Græna herberginu. Þá segir að Sambandið muni taka umrædda myndbandsupptöku til nánari skoðunar og muni upplýsa um framgang málsins.
Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrri útgáfu sagði að öll sveitin muni gangast undir fíkniefnapróf en það hefur verið leiðrétt.