Skoðun

Sósíalistar vilja lækka skatta og láta hin ríku borga

Andri Sigurðsson skrifar

Ólíkt Sjálfstæðisflokknum og þeim stjórnmálaflokkum sem hafa verið við völd síðustu áratugi vilja sósíalistar lækka skatta á almenning, hætta að skattleggja fátækt. Í nýjum tillögum flokksins er lagt til mikla lækkun tekjuskatts á miðlungstekjur og þar undir auk hækkunar persónuafsláttar, barnabóta og húsnæðisbóta. Þá viljum við sósíalistar vinda ofan af gjaldtöku nýfrjálshyggju áranna fyrir opinbera þjónustu og innviði sem við teljum ósanngjarna og aðeins til þess fallna að styðja við markmið hægrisins um einkavæðingu þessara sömu innvitað. Almenningur á ekki að þurfa að greiða stórar fjárhæðir fyrir lyf eða heimsóknir til heimilislæknis. Almenningur á ekki að þurfa að fá reikning fyrir akstri með sjúkrabíl þegar slys verða. Við Íslendingar áttum heilbrigðiskerfi sem var aðgengilegt öllum án endurgjalds. Það er markmið sósíalista að svo verði aftur.

Staðreyndin er sú að síðustu áratugi hefur skattheimta markvisst verið færð frá ríkasta fólkinu í samfélaginu yfir á verka- og launafólk. Aðeins skattar á hin allra ríkustu hafa lækkað síðan á tíunda áratugnum. Þetta sýna gögn svart á hvítu. Þvert á það sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur fram hefur sá flokkur ekki gert neitt nema hækka skatta og auka gjaldtöku á almenning. Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp fyrir um þremur áratugum greiddi fólk á lágmarkslaunum enga skatta. Í dag greiða þau sem eru á lágmarkslaunum um 17% af tekjum sínum í skatt þó vitað sé að þetta fólk lifi við ómannsæmandi aðstæður og fátækt í einu ríkasta landi heims.

Sósíalistar vilja:

●Hætta skattlagningu fátæktar og lágmarkslauna

●Verulega lækkun skatta á miðlungs og lægri tekjur sem nemur um 700 þús. kr. á ári.

●Hækkun barnabóta upp í 50 þús. kr á mánuði fyrir hvert barn.

●Hækkun húsnæðisbóta og að enginn þurfi að borga meira en fjórðung af tekjum sínum í húsnæðiskostnað.

●Að gjaldtöku verði hætt fyrir tekjulægstu hópanna í heilbrigðisþjónustunni, menntakerfinu og öðrum grunnkerfum opinberrar þjónustu.

Ójöfnuður í samfélaginu hefur vaxið gríðarlega síðustu áratugi, ýmiss konar gjaldtaka hækkað, og húsnæðiskostnaður fólks aukist mikið. Það er kominn tími til að snúa dæminu við og byggja upp samfélag með þarfir fólksins að leiðar ljósi. Sósíalistar vilja lækka skatta á almenning því stjórnmálaflokkar hinna ríku hafa ekki gert annað en að hækka þá undanfarnar áratugi. Sósíalistar vilja þar að auki lækka húsnæðiskostnað almennings með byggingu 30 þúsund íbúða á tíu árum inn í opinbert og félagslegt húsnæðiskerfi í takt við verkamannabústaðakerfið sáluga. Tökum völdin af auðstéttinni í komandi kosningum og byggjum upp gott samfélag fyrir alla, ekki aðeins hin fáu ríku.

Höfundur er hönnuður og félagi í Sósíalistaflokk Íslands.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×