Lögmaður Samherja fullyrti á Vísi í gær að síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja, hefði verið stolið af honum meðan hann lá alvarlega veikur á sjúkrahúsi. Þá væru skyndileg veikindi Páls til skoðunar.
Páll er hluti af svonefndri „skæruliðadeild Samherja“ sem hefur beitt sér gegn fjölmiðlafólki og gangrýnendum útgerðarfélagsins sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarna daga.
Kjarninn og Stundin hafa að undanförnu birt samskipti skæruliðadeildarinnar, sem virðist meðal annars hafa lagt á ráðin um að hafa áhrif á prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum og kjör formanns Blaðamannafélags Íslands, til þess að verja hagsmuni Samherja.
Beiðni fréttastofu um viðtal við Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra í morgun vegna hins meinta þjófnaðar var hafnað á þeirri forsendu að engar upplýsingar væri hægt að veita að svo stöddu. Von væri á tilkynningu lögreglu á Facebook sem var birt upp úr hádegi.