Kirkjuferja er bær í Sveitarfélaginu Ölfuss en þar fyrir neðan er Ölfusá og rétt við bæinn er eyja, sem hefur vakið athygli fuglafræðinga og annarra áhugamanna um fugla því þar eru allt í einu komnir helsingjar með hreiður, eitthvað sem mönnum hefði aldrei dottið í hug. Helsinginn er önnur tveggja ,,svartra" gæsa sem fara um landið og eru á stærð við heiðagæs og blesgæs.

„Svo frétti ég frá glöggum veiðimönnum á Selfossi að þeir höfðu séð hérna hópa í ágúst, sem er óvenjulegt. Ég fór með þeim hingað í vor að leita og við fundum sautján pör hérna á eyjunni undan Kirkjuferju. Fuglinum líst greinilega mjög vel á sig í Ölfusi og hefur stoppað á leið sinni og séð að hér væri gott að vera og alveg óþarfi að vera að fljúga til Grænlands,“ segir Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís.
Arnór segir að hvert par komi oftast þremur til fjórum ungum upp en fuglinn parar sig fyrir lífstíð. En það eru fleiri fuglategundir í eyjunni.
„Já, já, þetta er mjög skemmtileg eyja greinilega. Þar eru grágæsir, álft er þarna í varpi og svo verpa í eyjunni mávar talsvert, sílamávur, svartbakar, tjaldur og fleiri fuglar þegar maður kíkir þarna út í eyjuna,“ segir Arnþór.
