Í umfjöllun AP fréttastofunnar segir að í Suður-Afríku til að mynda, sem þó er eitt öflugasta ríki álfunnar, hafi aðeins tekist að bólusetja um 0,8 prósent íbúa landsins.
Þar hefur kórónuveirufaraldurinn verið mjög útbreiddur og í dag hafa heilbrigðisstarfsmenn ekki einu sinni verið bólusettir nema að litlum hluta.
Í Nígeríu, fjölmennasta landi álfunnar, hefur tekist að bólusetja 0,1 prósent landsmanna og í Kenía er hlutfallið enn lægra.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsir miklum áhyggjum af þróuninni en loforð vestrænu ríkjanna um að tryggja öllum bóluefni virðast hafa verið innantóm enn sem komið er.
Í Tsjad fékk fyrsti einstaklingurinn bóluefni um liðna helgi og enn eru að minnsta kosti fimm Afríkuríki í þeirri stöðu að hafa ekki bólusett einn einasta landsmann.