Það hefur farið fram hjá fáum að dregið hefur verulega úr kvikustrókavirkni gossins síðustu daga. Það hefur þó ekki dregið úr hraunrennsli frá gígnum heldur hafa myndast einangraðar rásir undir hrauninu sem veita kvikunni farveg.
Þorvaldur Þórðarson ræddi gosið í Reykjavík síðdegis í dag. Spurður hvort sjónarspilið við gosstöðvarnar ætti eftir að verða minna sagði hann:
„Það dregur heldur úr því held ég.“
Hraunið rennur allt undir skorpunni
Hann útskýrði hvernig rennandi hraunið hefur búið sér til afmarkaða farvegi undir hörðu yfirborðinu, sem það á greiða leið um. Megnið af hrauninu losni þannig frá gígnum án þess að það sjáist þegar horft er á gosstöðvarnar.
„Þetta sem við sjáum á yfirborðinu er bara skorpa, efst er hún stökk og síðan er hún deig undir. Deigi hlutinn hann heldur yfirborðinu alveg uppi og þar undir er meira og minna rennandi hraun sem að er í ákveðnum innri rásum,“ sagði Þorvaldur.
Og þetta þýðir að hraunið dreifir meira úr sér: „Hitatapið minnkar og því heitari og meira þunnfljótandi verður kvikan þegar hún kemur út úr flutningskerfinu. Þá á hún auðveldara með að dreifa sér og lengja hraunið sem vex þá bara smátt og smátt.“
Hér má sjá magnaðar myndir frá gosstöðvunum í gær sem Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, tók með dróna:
Hefur langt gos á tilfinningunni
Spurður hvort hraunið eigi þá eftir að renna yfir Suðurstrandarveg segir hann: „Það fer alveg eftir því hvað gosið stendur lengi. Ef að eins og mig grunar að þetta gos muni halda áfram í ekki bara mánuði heldur einhver ár, þá er það auðvitað óumflýjanlegt að það fari niður að Suðurstrandarvegi.“
Það muni þó ekki gerast alveg á næstunni heldur mun taka töluverðan tíma fyrir hraunið að ná niður að veginum.
Finnst þér líklegt að gosið verði í nokkur ár?
„Ég hef það svona á tilfinningunni þó maður geti auðvitað ekkert sagt um það því að náttúran hefur sína hentisemi á hlutunum. En það er ekkert sem segir okkur að gosið sé að stöðvast. Framleiðnin er enn þá sú sama,
Og eins og ég segi að flutningskerfið í hrauninu er að einangra sig betur og gígurinn er að einangra sig betur þannig að það er allt saman eitthvað sem stuðlar að því að gera þetta að þannig gosi að það geti búið til tiltölulega langt hraun og það ætti þá auðvelt með að fara alla leið niður í sjó.“