Konur fjörutíu ára og eldri fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis á þessum degi, 19. júní, árið 1915. Þá hafði baráttan staðið yfir frá 1885 en varð loks að veruleika þegar Kristján tíundi, þáverandi Danakonungur, undirritaði lög um breytingu á stjórnarskrá. Tímamótunum var fagnað í fyrsta sinn á þessum degi árið 1916 og hefur verið haldinn hátíðlegur allar götur síðan.
„Það er mikilvægt að halda upp á þennan dag og fagna því sem konur á Íslandi hafa áorkað í gegnum tíðina og í sinni baráttu. Dagurinn er mikilvægur af því að á þessum degi fengu konur 40 ára og eldri kosningarétt 1915 og þess vegna er mikilvægt að minnast þess en líka að vekja athygli á því að enn er langt í land í að jafnréttinu sé náð að fullu,” segir Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands.
Allir eigi jafnan rétt í samfélaginu.
„Það þarf að taka tillit til allra sem í þessu þjóðfélagi búa, til þeirra þarfa og stöðu, og passa upp á allar aðgerðir í átt að jafnrétti taki tillit til fjölbreytileika samfélagsins,” segir hún.