Skoðun

...en með ólögum eyða

Katrín Atladóttir skrifar

Nefnd um eftir­lit með lög­reglu telur vís­bendingar um að dagbókarfærsla lög­reglu um meint sótt­varna­brot í Ás­mundar­sal á Þor­láks­messu hafi verið efnis­lega röng og ekkert til­efni hafi verið til upp­lýsinga­gjafar af slíku tagi. Fram kemur í niðurstöðu nefndarinnar að ásetningur lögregluþjónanna hafi verið að skrifa æsilega dagbókarfærslu, sem fólk myndi lesa, sem átti sérstaklega að beinast að svokölluðum „Sjálfstæðis-framapoturum“ úr hópi kvenkyns sýningargesta.

Því fer fjarri að ásetningur lögreglu og efnislega röng tilkynning sé það alvarlegasta við málið. Í niðurstöðunni nefndarinnar kemur einnig fram að lögregla átti við sönnunargögn áður en þau voru afhent. Þar sem ummæli lögregluþjóna reyndust óheppileg var hljóðið afmáð. Fram kemur að margar tilraunir hafi þurft til að nefndin fengi ósvikin sönnunargögn í hendur.

Til hvers eru búkmyndavélar?

Háttsemi embættisins vekur upp ýmsar spurningar. Hve oft hefur því bragði verið beitt að breyta einfaldlega sönnunargögnum sem eru lögreglunni ekki þóknanleg? Við smá eftirgrennslan kemur í ljós að áður hefur verið kvartað yfir seinagangi við afhendingu gagna og að hljóðið vanti í upptökurnar. Búkmyndavélar lögregluþjóna eiga ekki eingöngu að vernda hagsmuni lögreglunnar sjálfrar, heldur einnig borgarana. Við þekkjum dæmi erlendis frá þar sem slíkar vélar hafa komið upp um gróf mannréttindabrot. Það er því grafalvarlegt að átt sé við gögnin áður en þau eru afhent.

Að standa undir traustinu

Ekki er langt síðan að almenn lögregla vopnvæddist, þegar komið var fyrir byssum í lögreglubílum, án þess að það samtal hafi verið átt við borgarana. Lögreglan hefur lýst sig andsnúna frumvarpi um afglæpavæðingu neysluskammta, sem kemur ekki á óvart því við vitum að lögreglan hefur farið frjálslega með líkamsleitarheimildir. Að auki hefur lögreglan lýst yfir ánægju með hugmyndir um banna notkun rafhlaupahjóla á helgarkvöldum og talað fyrir því að skerða opnunartíma veitinga- og skemmtistaða.

Lögreglan er mikilvæg stofnun, hún er hér til að þjóna landsmönnum og vernda þá. Lögreglan hefur einkarétt á valdbeitingu og þarf því að sýna hún er traustsins verð. Það er ekki gert með því að banna hluti sem fólk gerir sér til skemmtunar, segja ósatt í fréttatilkynningum eða eyða sönnunargögnum.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×