Samuel Luiz, 24 ára gamall sjúkraliði, var úti á lífinu með vinum sínum í borginni a A Coruna í Galasíu á aðfaranótt laugardags þegar rifrildi braust út milli hans og tveggja manna.
Vinur Luiz sagði í samtali við El Mundo að hann hafi farið út af skemmtistaðnum til að hringja myndsímtal þegar tveir menn sem gengu hjá sökuðu hann um að taka þá upp á myndband. Luiz hafi þá útskýrt fyrir þeim að hann væri að tala við vin sinn en að annar maðurinn hafi þá ráðist á hann og barið hann í andlitið. The Guardian greinir frá.
Aðeins fimm mínútum síðar hafi árásarmaðurinn snúið aftur með tólf til viðbótar. Réðst hópurinn á hann og missti Luiz meðvitund eftir átökin. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann dó seinna um morguninn.
Árásin er nú til rannsóknar en hún hefur vakið mikla reiði víða um Spán og var mótmælt víðsvegar í gær, þar á meðal í A Coruna, Madrid, Barcelona, Valencia, Salamanca, Bilbao og Zaragoza. Mótmælendur héldu margir á skiltum sem á stóð „Hinseginfordómar þínir eru að drepa okkur.“
Stjórnmálamenn í Madríd hafa kallað eftir svörum frá ríkisstjórninni eftir að lögregla handtók og ákærði mótmælendur í borginni í gær. Pedro Sánchez, forsætisráðherra, hefur fordæmt morðið á Luiz og sent vinum og fjölskyldu Luiz samúðarkveðjur.
Enn hefur enginn verið handtekinn vegna árásarinnar en fimmtán hafa mætt í skýrslutöku hjá lögreglu. Þá er vonast til þess að upptökur úr öryggismyndavélum muni hjálpa til við rannsókn málsins.