Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að núna geti menn farið að bretta upp ermar. Í fréttum Stöðvar 2 sagði hann að nú þegar hefðu farið allnokkrar vinnustundir í verkefnið en þær yrðu mjög margar héðan í frá.

„Þannig að það má segja að framkvæmdin sé hafin þótt engin sjáist grafan,“ sagði ráðherrann og kvaðst fagna þessum degi gríðarlega. Sundabrautin myndi bæta umferðaflæði á öllu höfuðborgarsvæðinu og bæta tengingar landsbyggðarinnar inn í borgina.
„Ég held að þetta bara rammi bara mjög vel inn þessi næstu skref í málinu þó að það séu mörg handtök eftir,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um yfirlýsinguna.

Sem fyrr er gert ráð fyrir að Sundbrautin verði í einkaframkvæmd og alfarið kostuð með veggjöldum. En má búast við að það geti orðið núningar milli ríkis og borgar í þessu máli, eins og hafa verið?
„Þeir hafa auðvitað verið í mjög langan tíma. Þessvegna er þessi viljayfirlýsing okkar í dag til marks um það að við höfum náð sameiginlegri sýn um verkefnið. Þessvegna er þetta stór dagur,“ svarar samgönguráðherra.
„Nú erum við að fara í leiðarvalið. Og þar eru einkum tveir kostir: Annarsvegar Sundabrú eða Sundagöng. Þetta verður metið núna í kjölfar félagshagfræðilegrar greiningar sem er að ljúka núna,“ segir borgarstjóri.

Samkvæmt yfirlýsingunni er stefnt að því að framkvæmdir við Sundabraut hefjist árið 2026 og að brautin verði tekin í notkun árið 2031. En trúa menn því að þær tímasetningar standist?
„Já, ég er bjartsýnn. Mér finnst þetta verkefni, frá því við tókum það föstum tökum núna á þessu kjörtímabili, hafa verið í fínum farvegi og eiginlega allir áfangar gengið upp. Og ég held að það haldi áfram,“ svarar ráðherrann.
„Nú held ég að við séum kannski í fyrsta skipti komin með raunhæfa tímaáætlun. En auðvitað þarf að hafa í öllum svona stórum og flóknum verkefnum fyrirvara varðandi umhverfismat og skipulagsþáttinn og það samráð sem framundan er,“ svarar borgarstjórinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: