Í Ólafsvík tók Guðjón Þórðarson við stjórnartaumunum á dögunum en þeir gerðu grátlegt 2-2 jafntefli við Grindavík í kvöld.
Grindavík komst yfir en tvö mörk á síðustu tíu mínútum leiksins virtust vera tryggja Ólsurum sigurinn.
Grindvíkingar jöfnuðu hins vegar metin í uppbótartíma og lokatölur 2-2. Ólafsvík áfram á botninum með tvö stig en Grindavík í þriðja sætinu með nítján.
Fram er með níu stiga forystu á toppnum eftir 2-0 sigur á Aftureldingu. Óskar Jónsson og Indriði Áki Þorláksson skoruðu mörkin.
Afturelding er í níunda sætinu með þrettán stig.
Fjölnir vann loksins leik í Lengjudeildinni en eftir fjóra leiki í röð án sigurs unnu þeir 2-1 sigur á Selfoss.
Ragnar Leósson og Jóhann Árni Gunnarsson komu Fjölni í 2-0 í fyrri hálfleik en Gary Martin minnkaði muninn í síðari hálfleik.
Fjölnismenn eru í fjórða sætinu með sautján sig en Selfoss er í tíunda sæti, tveimur stigum frá falli.
Í Lengjudeild kvenna skildu FH og Afturelding jöfn 1-1. Liðin eru því jöfn í öðru til þriðja sæti með nítján stig hvor en Afturelding er með betra markahlutfall.