Lögmaður Ingólfs, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hefur gefið það út að fimm aðilum hafa verið send kröfubréf vegna meintra ærumeiðinga í garð Ingós í fjölmiðlum. Þá hyggst hann kæra aðgerðahópinn Öfga fyrir birtingu nafnlausra frásagna meintra fórnarlamba Ingós.
Áform Ingós um að lögsækja þennan hóp fólks hafa fallið í grýttan jarðveg á samfélagsmiðlum. Haraldur hefur nú stigið fram og boðið fram fjárhagsaðstoð.
„Ég skal borga lögfræðikostnað fyrir alla sem þurfa í þessu máli. Ef þið þekkið fólk sem þarf hjálp sendið þau endilega til mín,“ segir Haraldur.
Blaðamenn, áhrifavaldar og fólk sem sakaði Ingó um refsiverða háttsemi í athugasemdakerfum fjölmiðla er sagt vera á meðal þeirra sem eiga von á kröfubréfi frá lögmanninum.
Nálgun Haralds er ekki óskyld því sem stundað hefur verið um árabil með svonefndum Málfrelsissjóði. Sá sjóður er rekinn á frjálsum framlögum en fé úr honum er veitt til þeirra sem þurfa að greiða sektir vegna ærumeiðinga í umræðu um kynbundið ofbeldi á opinberum vettvangi.
Haraldur virðist raunar sjálfur hafa lagt Málfrelsissjóð lið, ef marka má athugasemd hans við Facebook-færslu Hildar Lilliendahl Viggósdóttur í mars.
Peningarnir fara í samfélagsverkefni
Frá því að Haraldur seldi Twitter fyrirtæki sitt Ueno hefur hann verið við störf hjá samfélagsmiðlinum.
Kaupverðið var verulegt en nákvæm upphæð hefur ekki verið gefin upp. Það vakti athygli fjölmiðla þegar Haraldur greindi frá þeirri ákvörðun að greiða skattana af sölunni á Íslandi. Síðan hefur Haraldur vakið athygli fyrir að verja fénu í ýmis samfélagsverkefni, á borð við „Römpum upp Reykjavík.“
Það verkefni snýr að því að koma fyrir römpum á margvíslegum stöðum sem stuðla að bættu aðgengi fyrir fólk í hjólastól, en sjálfur notar Haraldur einn slíkan.