Moriba fór mikinn á sinni fyrstu leiktíð með aðalliði Barcelona í fyrra þar sem honum óx ásmegin eftir því sem leið á. Hann er aðeins 18 ára gamall en samningur hans við félagið rennur út næsta sumar.
Hann hefur sætt mikilli gagnrýni eftir að hafa hafnað nýjum samningi frá Börsungum í sumar en Barcelona hefur lagt fleira en eitt tilboð á borðið án þess að ná samkomulagi við unga manninn.
Koeman: Ilaix's situation is horrible. My advice is that money cannot be the most important thing for an 18-year-old. It's about playing games. But the player and his camp think differently. I am disappointed
— Samuel Marsden (@samuelmarsden) August 20, 2021
Ronald Koeman, þjálfari liðsins, bættist í hóp gagnrýnenda á blaðamannafundi í gær.
„Ég ræddi við hann fyrir 2-3 vikum síðan, meira sem manneskja en sem þjálfari. Staða hans vegna málsins er hræðileg,“ sagði Koeman. „Mín ráð eru þau að peningar eru ekki mikilvægasti hluturinn fyrir hann á þessu stigi ferilsins. Það er að spila leiki. Ég er mjög vonsvikinn,“
Moriba hefur verið settur í skammarkrókinn hjá félaginu vegna málsins og fær aðeins að æfa og spila með varaliði félagsins. Hann hefur fátt sagt um málið þrátt fyrir mikla gagnrýni en eftir ummæli Koemans setti hann inn færslu í sögu sína á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem sagði: Þúsundir sögusagna og enginn veit sannleikann.

Það bendir til að það sé önnur hlið á þessu máli en Moriba hefur verið orðaður við brottför vegna málsins, meðal annars til RB Leipzig í Þýskalandi. Barcelona vill þá losa sig við bæði Samuel Umtiti og Miralem Pjanic, sem báðir þéna há laun hjá félaginu, áður en félagsskiptaglugginn lokar eftir tíu daga.