Enski boltinn

Velta því fyrir sér hvort níska Liverpool komi í veg fyrir að Nunez spili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darwin Nunez skoraði og lagði upp í síðasta byrjunarleik sínum með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni en hefur ekki byrjað síðan.
Darwin Nunez skoraði og lagði upp í síðasta byrjunarleik sínum með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni en hefur ekki byrjað síðan. Getty/Carl Recine

Úrúgvæski framherjinn Darwin Nunez hefur ekki komið við sögu í síðustu tveimur leikjum Liverpool og blaðamenn í Portúgal velta fyrir sér ástæðunni fyrir því.

Samkvæmt frétt portúgalska blaðsins A Bola gæti ástæðan hreinlega verið kaupsamningur Liverpool við Benfica.

Liverpool keypti Nunez á 64 milljónir punda árið 2022 en eins og með marga kaupsamninga þá geta slík kaupverð hækkað nái leikmaðurinn ákveðnum markmiðum með nýja liðinu sínu.

Liverpool þarf þannig að borga Benfica fimm milljónir evra í viðbót um leið og Úrúgvæinn byrjar sinn fimmtugasta leik með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Nunez hefur til þessa verið 49 sinnum í byrjunarliði Liverpool í ensku deildinni. Næst þegar hann er í byrjunarliðinu þá þarf Liverpool því að borga portúgalska félaginu 727 milljónir íslenskra króna.

Nunez hefur skorað 7 mörk og gefið sjö stoðsendingar í 42 leikjum í öllum keppnum með Liverpool á leiktíðinni þar af eru 5 mörk og 3 stoðsendingar í 25 deildarleikjum.

Umfjöllun A Bola vekur vissulega athygli á þessari stöðu ekki síst þar sem að hann var ekki í hóp á móti West Ham og var síðan ónotaður varamaður á móti Leicester.

Nunez var síðast í byrjunarliðinu í ensku úrvalsdeildinni í 3-1 sigri á Southampton 8. mars og var þá bæði með mark og stoðsendingu.

Nú er að sjá hvort Arne Slot megi velja kappann í byrjunarliðið sitt eða hvort hann hafi hreinlega fengið fyrirskipun að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×