Esbjerg hefur átt í miklum vandræðum á leiktíðinni, innan vallar sem utan, en hinn umdeildi Peter Hyballa, sem var sakaður um eineltistilburði í starfi, var skipt út fyrir Roland Vrabec fyrr í mánuðinum.
Illa virðist ganga að rétta úr kútnum en liðið leitar enn síns fyrsta sigurs í deildinni. Hinn 19 ára gamli Mads Larsen kom liðinu 1-0 yfir gegn Nyköbing í dag.
Nyköbing eru nýliðar í deildinni eftir sigur í C-deildinni í fyrra en þjálfari liðsins er Claus Jensen, sem var liðsfélagi Hermanns Hreiðarssonar hjá Charlton Athletic í ensku úrvalsdeildinni auk þess að leika fyrir Fulham. Varnarmaðurinn Mikkel Juhl jafnaði snemma í síðari hálfleik fyrir Nyköbing og þar við sat. Liðinu tókst ekki að nýta sér liðsmuninn eftir að Ástralanum Con Ouzounidis í liði Esbjerg var vísað af velli tíu mínútum fyrir leikslok.
Andri Rúnar Bjarnason var allan tímann á varamannabekk Esbjerg en Ísak Óli Ólafsson var ekki í leikmannahópi liðsins.
Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og er Esbjerg á botni deildarinnar með þrjú stig eftir sjö leiki, fyrir neðan bæði Hobro og Fremad Amager vegna lakari markatölu.
Nyköbing er í sjötta sæti með níu stig.