Íslenski boltinn

Versti sóknar­leikur ný­liða í meira en þrjá ára­tugi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Afturelding er núna búið að spila tvo fyrstu leiki sína í efstu deild frá upphafi en liðið á enn eftir að skora sitt fyrsta mark í efstu deild.
Afturelding er núna búið að spila tvo fyrstu leiki sína í efstu deild frá upphafi en liðið á enn eftir að skora sitt fyrsta mark í efstu deild. Vísir/Diego

Afturelding og ÍBV eru nýliðar í Bestu deild karla í fótbolta og náðu bæði í sitt fyrsta stig í deildinni í gær. Það er hins vegar algjör markaskortur á báðum vígstöðvum eftir þess fyrstu tvo leiki Íslandsmótsins.

Afturelding og ÍBV gerðu 0-0 jafntefli í Mosfellsbænum í gær sem þýðir að hvorugt liðið hefur náð að skora mark í fyrstu tveimur umferðum deildarinnar.

Afturelding tapaði 2-0 fyrir Íslandsmeisturum Breiðabliks í fyrstu umferð en ÍBV tapaði 2-0 á útivelli á móti Víkingum.

Markatala nýliðanna samtals er því 0-4. Alls ekki slæmt að fá bara fjögur mörk á sig samanlagt en þetta er aftur á móti versta sóknarframmistaða nýliða í meira en þrjá áratugi.

Það þarf nefnilega að fara alla leið til ársins 1994 til að finna tímabil þar sem báðum nýliðunum heur ekki tekst ekki að skora eitt einasta mark í fyrstu tveimur umferðunum.

Það sumar voru Breiðablik og Stjarnan nýliðar í deildinni og markatala þeirra til samans eftir tvo leiki var 0-11.

Blikar töpuðu á móti KR (0-5) og Keflavík (0-4) en Stjörnumenn gerðu markalaust jafntefli við Fram og töpuðu síðan 0-2 á móti KR.

Síðan þá höfðu báðir nýliðarnir til samans aðeins tvisvar sinnum skorað minna en þrjú mörk í fyrstu tveimur umferðunum en það var annars vegar árið 2020 (Grótta og Fjölnir með 2 mörk) og hins vegar árið 2007 (HK og Fram með 2 mörk).

  • Fæst mörk nýliða samanlagt í fyrstu tveimur umferðunum síðustu fjörutíu ár:
  • (Frá 1985-2025)
  • 0 mörk - Afturelding og ÍBV 2025
  • 0 mörk - Stjarnan og Breiðablik 1994
  • 2 mörk - Grótta og Fjölnir 2020
  • 2 mörk - HK og Fram 2007
  • 2 mörk - FH og Fylkir 1985
  • 2 mörk - Breiðablik og ÍBV 1986
  • 2 mörk - Leiftur og Víkingur 1988
  • 3 mörk - Víkingur R. og Þór Ak. 2011
  • 3 mörk - Stjarnan og Fylkir 2000



Fleiri fréttir

Sjá meira


×