Þetta staðfestir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu en RÚV greindi fyrst frá. Margeir segir að rannsókn haldi áfram og að skýrslutökur hafi farið fram síðustu daga. Hann vill lítið tjá sig um stöðu málsins að svo stöddu og segir það á mjög viðkvæmu stigi.
Hjúkrunarfræðingurinn er á sjötugsaldri og var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Landsréttur felldi þann dóm úr gildi og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að hafa konuna áfram í haldi vegna rannsóknarhagsmuna.
Fjölskyldan harmi slegin
Sjúklingurinn sem lést fyrr í mánuðinum var á sextugsaldri og hafði verið lögð inn á geðdeild Landspítalans þar sem hjúkrunarfræðingurinn starfaði. Ágúst Ólafsson, lögmaður fjölskyldu hinnar látnu, hyggst ekki tjá sig um málið á meðan það er til meðferðar hjá lögreglu.
„Fjölskylda hinnar látnu er harmi slegin og lítur málið allt mjög alvarlegum augum. Fjölskyldan fellir enga dóma fyrr en allar upplýsingar liggja fyrir,“ segir hann í yfirlýsingu til fjölmiðla nú síðdegis.
Samkvæmt heimildum fréttastofu útilokar lögregla hvorki að andlátið hafi borið að með ásetningi eða gáleysi og grunar lögreglu að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. Heimildir fréttastofu herma að konan hafi kafnað í matmálstíma. Málið er einnig til rannsóknar hjá embætti landlæknis.