Íranska markavélin Ali Daei hefur átt metið yfir markahæsta landsliðskarl sögunnar frá árinu 2006 en hann skoraði 109 landsliðsmörk í 148 landsleikjum fyrir Íran frá 1993 til 2006.
Ronaldo hefur sótt fast að metinu með því að raða inn mörkum fyrir Portúgal síðustu misseri og jafnaði það á EM karla í sumar. Hann var því með 109 mörk fyrir leik kvöldsins við Írland.
Hann fékk tækifæri til að taka metið er Portúgal fékk vítaspyrnu snemma leiks en brást þar bogalistin. Portúgal lenti 1-0 undir og var það þar til á 89. mínútu þegar Ronaldo jafnaði leikinn og sló þar með metið. Hann bætti þá öðru marki við er hann tryggði Portúgal sigur á 96. mínútu leiksins.
Ronaldo er því alls kominn með 111 landsliðsmörk á ferlinum og er markahæsti landsliðsmaður sögunnar. Hann og Daei eru í sérklassa en þriðji á listanum er Mokhtar Dahari frá Malasíu með 89 mörk.
Útilokað er þó að hann nái meti kvenna sem hin kanadíska Christine Sinclair á. Hún hefur skorað 187 landsliðsmörk á sínum ferli, þremur meira en hin bandaríska Abby Wambach en þær eru langmarkahæstu konur sögunnar, á undan Birgit Prinz frá Þýskalandi sem skoraði 128 mörk.