Skoðun

Verðmæti eða þræll?

Héðinn Sveinbjörnsson skrifar

Hvort sérðu starfsmenn sem verðmæti eða þræla? Hvernig upplifa starfsmenn sig í vinnunni, sem verðmæti eða sem þræla?

Nú hefur heimsfaraldurinn geysað í eitt og hálft ár og framhaldið óljóst. Eitt er þó víst að alls staðar í heiminum hefur fólk farið að velta fyrir sér lífinu og tilverunni. Er jafnvægi milli vinnu og einkalífs? Er það þess virði að vinnan er oftast í fyrsta sæti í lífinu og er hægt að treysta því að njóta þegar vinnuævinni er lokið?

Margir hafa endurskoðað hug sinn til spakmælisins "vinnan göfgar manninn". Hver er fórnarkostnaðurinn? Margir eiga minningar um foreldra, ömmur og afa sem unnu myrkranna á milli til að koma börnum sínum á legg og þau náðu aldrei að njóta afraksturs erfiðis síns. Gleði, lukka, hamingja var eitthvað ofan á brauð og það þótti ekki góð dyggð að hugsa um eitthvað svona, hvað þá að leyfa sér þessa hluti.

Lífið er núna og það er mikilvægt að opna augun og spyrja: "Er ég verðmæti eða þræll?" Hvað ef þú lendir í áfalli sem gerir það að verkum að öll framtíðarplön breytast, þú þarft að endurmeta lífið af því að þú ætlaðir að njóta seinna?

Sem betur fer eru hlutirnir að breytast og margir að uppgötva að það er mikilvægt að njóta og uppskera í rauntíma en ekki í framtíðinni sem enginn veit hvað ber í skauti sér.

Vikuna 20. – 26. september 2021 verður alþjóðleg vika vellíðunar í vinnu (e. International Week of Happiness at Work). Þá er kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki og starfsmenn þeirra að skoða hvernig málum er háttað hjá þeim. Er litið á starfsmenn sem verðmæti eða þræla? Fá starfsmenn verkefni við þeirra hæfi eða eru verkefnin listuð upp á tvö A4 blöð og síðasta setningin hljómar: "og allt það sem yfirmaður lætur viðkomandi í té!"

Öll viljum við upplifa að vera einhvers virði, vera metin að verðleikum og þar með að vera partur af einhverju stærra. Sem starfsmenn viljum við geta sagt með stolti "ég er að vinna hjá þessu fyrirtæki" og þá skiptir ekki máli hvar við erum í virðingarstiganum. Sagan segir að húsvörður hjá NASA, þegar hann var spurður hvað hann gerði hjá NASA, svaraði því til "að koma mönnum til tunglsins". Húsvörðurinn var mikilvægur hlekkur í stærra mengi og þannig partur af þeirri vinnu að koma fyrstu mönnuðu tunglflauginni út í geiminn.

Hvernig er það í nútíma fyrirtækjum, vita starfsmenn til hvers er ætlast af þeim? Eru starfsmenn að vinna að sömu markmiðum og yfirmenn/eigendur? Er sýn fyrirtækisins starfsmönnum ljós sem gerir það að verkum að starfsmenn vita til hvers er ætlast af þeim? Veistu sem yfirmaður/eigandi hvernig starfsmönnum líður á þínum vinnustað. Upplifa starfsmenn tilfinningalega einangrun á vinnustaðnum. Er starfsmönnum sýndur áhugi?

Eins og fyrr sagði þá er alþjóðleg vika vellíðunar í vinnu 20. – 26. september. Þessi vika á að beina athyglinni að umræðuefninu vellíðan í vinnu og kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki til að bjóða upp á fyrirlestra, kynningar og fleira þessu tengdu. Alþjóðleg vika vellíðunar í vinnu er ekki í eigu neins og ekki neinar reglur um hvað má og hvað má ekki. Hvað með að fá tónlistarfólk, uppistandara og bókarhöfunda til að koma og sýna sig og sjá aðra? Hvað með alla þessa frábæru fyrirlesara á Íslandi sem eru að bjóða upp á ýmislega fræðslu þar sem manneskjan er í fyrirrúmi?

Það er valkvætt fyrir fyrirtæki að vera með í þessari alþjóðlegu viku vellíðunnar í vinnu. Ef fyrirtæki sem er að gera góða hluti, þar sem hlúð er að starfsmönnum fyrirtækisins, hvers vegna ekki að leyfa öðrum að kynnast hvað fyrirtækið er að gera? Í þessu samhengi skiptir stærðin ekki máli því hægt er að senda samstarfsfólki þínu kort til að þakka þeim fyrir frábært samstarf. Skipuleggja óvænta uppákomu. Bjóða upp á námskeið t.d. um svefnvenjur og hvíld því það hefur allt áhrif á allt lífið.

Ef stefna fyrirtækis er að efla vellíðan á vinnustað sínum þá mun það vernda gegn streitu og kulnun í starfi. Það að starfsmenn séu metnir að verðleikum og þeir finni að þeim sé sýndur áhugi og vinsemd hlýtur að vera hagur fyrirtækisins.

Verðmæti eða þræll? Það er spurningin?

Höfundur er „Chief Happiness Officer“.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×