Hildur Yeoman hönnuður segir að það hafi verið stílistinn Oliver Vaughn sem setti saman lúkkið fyrir söngkonuna þetta kvöld. Hún vissi þó ekki fyrir fram að stjarnan ætlaði að klæðast þessu setti á opnunarkvöldinu.
„Ég vissi að stílistinn hennar var í sambandi við umboðsmanninn okkar í London. Það eru mikið af stjörnum þar og í Bandaríkjunum að klæðast Hildur Yeoman flíkum,“ segir Hildur Yeoman í sambandi við Vísi.
„Stundum hafa þær eða stílistarnir þeirra einnig beint samband við okkur í gegnum samfélagsmiðla. Mér finnst þetta líka skemmtilegt að því leyti að ég er alltaf að kynnast nýrri tónlist með þessum hætti. Hönnunin okkar er að ferðast um allt, fara í geggjuð partý eða sem sviðsfatnaður úti í heimi sem er æðislega gaman.“
Hildur segir að hún finni vel fyrir aukinni umferð á vefsíðuna sína þegar stjörnur og erlendir tískuáhrifavaldar klæðast flíkunum. Kehlani er með yfir 13 milljónir fylgjenda á Instagram og yfir 14 milljónir mánaðarlega hlustendur á Spotify.
Algjör draumur
„Það var algjör toppur fyrir mig persónulega að sjá myndir af Kehlani með Naomi Campbell og Edward Enninful, ritstjóra breska Vogue. Þetta er fólkið sem hefur raunveruleg áhrif í þessum bransa. Myndirnar af henni í settinu hafa ferðast mjög víða, meðal annars á síður Vogue, sem er algjör draumur fyrir okkur,“ segir Hildur stolt.
„Það er að myndast mikil eftirspurn fyrir merkinu úti og við erum rosalega spenntar fyrir framhaldinu. Við hönnun allt í stúdíóinu okkar á Laugavegi 7, þar sem verslunin er staðsett. Við vorum að taka upp nýja geggjaða línu í búðinni sem hentar vel fyrir haustið. Ullarsett, hlýjar peysur, fallega kjóla og fleira. Við hlökkum til að taka á móti öllum æðislegu íslensku kúnnunum okkar þar eða í vefversluninni á hilduryeoman.com.“

Settið sem Kehlani klæddist heitir Sunshine Sparkle og er úr SPLASH! línu hönnuðarins sem við höfum áður fjallað um hér á Lífinu. Settið er enn fáanlegt í vefverslun Hildar Yeoman þegar þetta er skrifað.