Skoðun

Nauð­syn­leg inn­leiðing hring­rásar­hag­kerfisins

Kristín Hermannsdóttir og Ívar Atli Sigurjónsson skrifa

Á síðastliðnum árum höfum við sem samfélag áttað okkur á því að við þurfum öll að spýta í lófana þegar það kemur að umhverfismálum. Stórt skref í baráttu okkar við hin neikvæðu umhverfisáhrif er að takmarka úrgangsmyndun. Óþarfa myndun úrgangs verður í okkar daglega lífi sem og innan atvinnulífsins. Augljósasta leiðin til þess að sporna við óþarfa úrgangsmyndun er að nýta allar auðlindir til hins ýtrasta.

Hringrásarhagkerfið

Flestar auðlindir geta verið endurnýttar, endurunnar, endurnotaðar o.fl. Þó er það allt of algengt að auðlindum sé fargað þrátt fyrir að eiga enn töluverðan líftíma. Til að sporna við þessu þarf viðhorfsbreytingu, fræðslu og aðgerðir í þágu betri nýtingar auðlinda. Aukin nýting allra auðlinda þarf að gerast vani sem samfélagið temur sér.

Meðal þeirra aðgerða sem við þurfum að koma til framkvæmda er innleiðing hringrásarhagkerfið hér á Íslandi, bæði innan samfélagsins sem og í atvinnulífinu. Hringrásarhagkerfið er hugmyndafræði sem snýst í megindráttum um að viðhalda verðmæti auðlinda og lágmarka myndun úrgangs. Það er gert með hönnun og framleiðslu sem lengir líftíma vöru með t.d. endurnotkun, viðgerðum og endurvinnslu að notkun lokinni.

Sem dæmi um hringrásarhugmyndafræðina má taka verslanir sem selja notuð föt. Þannig er komið í veg fyrir að þau hráefni sem nýtt voru í fötin verði fargað of snemma. Þess í stað finnur fatnaðurinn nýtt heimili og líftími hráefnanna framlengist. Annað dæmi væri sú klassíska endurvinnsla flaska og dósa, sem við könnumst öll við í dag. Með slíkri endurvinnslu er stuðlað að því að auðlindirnar, t.d. ál, endurnýtast í stað þess að enda á haugunum þrátt fyrir augljóst notagildi.

Grænn flokkur, grænar lausnir

Framsókn vill stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins í íslenskt samfélag og atvinnulíf. Í þeirri innleiðingu má engan tíma missa. Auðlindir fara til spillis að óþörfu á degi hverjum, og því fyrr sem brugðist verður við, því fyrr er hægt að hámarka líftíma þeirra. Það er hagkvæmt fyrir umhverfið ásamt því að vera einstaklingum og fyrirtækjum til hagsbóta fjárhagslega séð. Hringrásarhagkerfið felst í nútímalausnum í þágu framtíðarinnar.

Framtíðin er græn, eins og við í Framsókn!

Kristín situr í 4. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Ívar situr í 5. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×