Sprækir Þórsarar burstuðu ringlað lið Vallea

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Stebbicoco hjá Þór var valinn MVP viðureignarinnar.
Stebbicoco hjá Þór var valinn MVP viðureignarinnar.

Nýtt lið Þórs gerði sér lítið fyrir og gjörsigraði Vallea í fyrsta leik liðanna á tímabilinu. Vallea kom engum vörnum við gegn StebbaC0C0 sem átti stóran þátt í 16-3 sigri Þórs.

Mikilvægt að byrja tímabilið vel

Fyrir leikinn þótti lið Vallea sigurstranglegra enda stóðu þeir sig frábærlega á síðasta tímabili undir merkjum XY og lentu í öðru sæti Stórmeistaramótsins í sumar. 

Lið Þórs hefur hins vegar tekið miklum breytingum frá því á síðasta tímabili. Rean er sá eini sem lék með Þór í fyrra en í leikmannahópinn hafa bæst þrír leikmenn Hafsins auk StebbaC0C0 sem áður keppti fyrir Dusty. Vallea og Þór var spáð öðru og þriðja sæti deildarinnar og því til mikils að vinna í gærkvöldi, til að tryggja sér yfirhöndina snemma á tímabilinu.

Þórsarar mættir til að vinna

Leikurinn fór fram í háloftakortinu Vertigo og eftir hnífalotu kaus Þór að byrja í vörn (Counter-Terrorists) en Vallea í sókn (Terrorists). Þórsarar voru greinilega mættir til að vinna og tóku fyrstu lotuna án þess að missa mann en þar felldi Rean þrjá andstæðinga strax í upphafi. Detinate og Allee tryggðu Þór sigur í næstu lotu og í þeirri þriðju slökkti Dell1 snarlega í hraðri sókn Vallea og felldi fjóra leikmenn. Lið Vallea er þekkt fyrir að þurfa gjarnan smá tíma til að koma sér í gang og var allt útlit fyrir að það tækist þegar leikmenn liðsins tryggðu sér stig í næstu þremur lotunum. Staðan var 3-3, bæði lið mætt til leiks og allt gat gerst. En allt kom fyrir ekki.

Það er ljóst að StebbiC0C0 unir sér vel með nýju liðsfélögunum og fékk hann tækifæri til að fara vítt um völl og fella andstæðinga þeim að óvörum. Hvorki gekk né rak hjá Vallea að búa sér til neitt pláss fyrir skipulagðar aðgerðir á meðan Þórsarar gerðu vel bæði í að sitja fyrir þeim og mæta þeim af hörku framarlega á kortinu. Undir lok hálfleiks voru bæði StebbiC0C0 og Allee komnir á vappann sem reyndist afar banvænt tvíeyki.

Staða í hálfleik Þór 12 - 3 Vallea

Vélin mallaði áfram

Síðari hálfleikur var í styttri kantinum. Leikmenn Vallea vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið á meðan Þórsarar létu vélina malla áfram, sköpuðu sér rými og skelltu Vallea auðveldlega að lokum. 

Mikilvægur sigur fyrir Þór sem sýndi að þrátt fyrir miklar mannabreytingar og stuttan undirbúningstíma mun liðið gera tilkall til toppsætanna ef eitthvað er að marka þennan leik.

Lokastaða Þór 16 - 3 Vallea

Bein lýsing

Leikirnir