Umfjöllun og viðtöl: Valur - Grindavík 81-77 | Kaflaskiptur leikur er Valur sigraði Grindavík eftir spennandi lokakafla Árni Jóhannsson skrifar 14. október 2021 23:09 Kristófer Acox og félagar í Valsliðinu verða að spila betur í kvöld. Vísir/Bára Dröfn Valsmenn náðu í sinn fyrsta sigur í Subway deild karla þegar þeir lögðu Grindavík að velli 81-77 í kaflaskiptum leik sem varð spennandi í lokin eftir að ekkert benti til þeirrar þróunar lengi vel í seinni hálfleik. Bæði lið eru þá komin með tvö stig í pokann góða en það voru batamerki á leik þeirra beggja úr síðustu umferð. Sóknarleikur liðanna var ekki upp á marga fiska í fyrstu umferðinni og hélt hann áfram að vera stífur í fyrsta leikhlutanum en Valsmenn náðu að betri köflum sóknarlega en bæði lið stóðu vaktina virkilega vel í varnarleik sínum. Valsmenn höfðu átta stiga forskot eftir fyrsta leikhluta 19-11 eftir að hafa náð 9-0 spretti í lok hans. Grindvíkingar náðu vopnum sínum í öðrum leikhluta sem þeir unnu 20-25 en varnarleikurinn hélt áfram að vera góður en það sem breyttist milli leikhluta var að Grindvíkingar fundu taktinn sóknarlega. Þeir voru í fínum séns að ná forskotinu í lok fyrri hálfleiksins en eins og oft í leiknum gerði klaufaskapur vart við sig þannig að seinustu stig hálfleiksins voru Valsmanna sem voru með þriggja stiga forskot í hálfleik 39-36. Valsmenn tóku þessa seinustu körfu með sér inn í seinni hálfleikinn og gjörsamlega völtuðu yfir gesti sína og voru búnir að skora 18 stig gegn sjö þegar um sex mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta og stífnin sem Grindavík hafði liðið fyrir í sóknarleiknum gerði aftur vart við sig í þriðja leikhluta. Þeir náðu að laga stöðuna örlítið í lok leikhlutans en staðan var 63-49 að honum loknum og voru menn á því að vonin væri veik hjá Grindvíkingum. Grindvíkingar eru þó þekktir fyrir allt annað en að gefast upp og gerðu virkilega vel í því að naga leikinn til baka þannig að þegar um 40 sekúndur lifðu af leiknum þá skoraði Kristinn Pálsson þriggja stiga körfu til að minnka muninn í þrjú stig 79-76. Grindvíkingar fengu þá víti þegar 11 sekúndur voru eftir en Naor Sharabani náði ekki að nýta nema annað þeirra en kollegi hans á hinum endanum, Pablo Bertone, klikaði ekki á vítalínunni hinum megin og lokaði leiknum sem endaði 81-77. Valsmenn geta gengið sáttir frá borði enda komnir á blað í Subway deildinni en Grindvíkingar þurfa að líta inn á við og sjá hvað þarf að laga til að þeir lendi ekki oft á eltingaleik í hverjum leik. Afhverju vann Valur? Þegar á reyndi náði Valur að hnýta saman góðan varnarleik og sóknarleik. Þeir bjuggu sér til gott forskot í þriðja leikhluta og þegar á hólminn var komið reyndist sá munur sem var á liðunum vera of mikill til að Grindvíkingar næðu að hala þá inn. Grindvíkingar gerðu góða tilraun en Valsmenn stóðust prófið. Hvað gekk vel? Varnarleikur liðanna var heilt yfir mjög góður. Sóknarleikurinn gekk ekki vel nema á köflum en hann gekk þá betur hjá Valsmönnum þegar þeir fundu taktinn en þegar þeir fundu hann þá komu einnig til sögunnar sóknarfráköst en upp úr þeim skoruðu heimamenn 13 stig á móti fjórum gestanna. Hvað gekk illa? Við verðum að tala um sóknarleikinn. Grindvíkingar náðu ekki að passa nógu vel upp á boltann og töpuðu honum 18 sinnum í leiknum. Valsmenn töpuðu honum 12 sinnum sem er skömminni skárra en Valsmenn nýttu sér vel töpuðu boltana hjá Grindavík og skoruðu 21 stig upp úr töpuðum bolta hjá Grindavík en gestirnir skoruðu einungis níu þannig stig. Tölfræði sem vakti athygli Blaðamaður talaði um það í byrjun leiks og stigin í teignum yrðu vandamál fyrir Valsmenn í dag þar sem fyrir var Ivan Aurrecoechea. Annað kom á daginn. Valsmenn skoruðu 44 stig í teig gestanna en Grindavík einungis 24 stig hinum megin. Bestir á vellinum? Pablo Bertone leiddi Valsmenn til sigurs með 22 stig og fimm stoðsendingum. Valsmenn fengu hinsvegar framlag úr mörgum áttum og skoruðu allir í byrjunarliðinu yfir 10 stig. Hjá Grindvíkingum var Ivan Aurrecoechea stigahæstur með 23 stig en hann bætti við 17 fráköstum og sex stoðsendingum. Kristinn Pálsson bætti við 20 stigum og hitti mörgum stórum skotum. Hvað næst? Grindvíkingar fá KR í heimsókn í næstu umferð en þar eru á ferðinni tvö lið sem hafa unnið einn leik hingað til. Verkefni Valsmanna er svo verðugt en þeir þurfa að bruna inn í Reykjanesbæ og keppa við Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni. Daníel Guðni: Það þurfti bara að kveikja á orkustiginu Þjálfari Grindvíkinga, Daníel Guðni Guðmundsson, var að vonum súr með niðurstöðuna úr leiknum fyrr í kvöld og var spurður að því hvað hafi skilið á milli hjá liðunum. „Þetta voru tveir slæmir kaflar hjá okkur í fyrsta og þriðja leikhluta sem riðu baggamuninn í kvöld. Þetta var hálf sérstakt hérna í lokin að þetta hafi verið spennandi en þeir höfðu betur og áttu það skilið.“ Daníel var spurður hver skilaboðin hafi verið milli þriðja og fjórða leikhluta en þá var munurinn talsverður og ekki mikil von fyrir hans menn. „Það þurfti bara að kveikja á orkustiginu. Í þriðja leikhluta þá ýttu þeir okkur út úr öllu og við vorum bara litlir í okkur og vorum að senda lélegar sendingar og það er bara aldrei vænlegt til árangurs. Við náðum svo að gjörbreyta því í fjórða leikhluta. Það er gaman að sjá að það geti gerst en að sama skapi svekkjandi að það sé ekki hægt að spila svona í fyrsta og þriðja leikhluta líka því það virðist vera þannig að um leið og við fáum 4-6 stig á okkur þá lítur það út eins og það sé búið að sprengja einhverjar blöðru sem fýkur bara eitthvert undir engri stjórn.“ Næst var Daníel spurður að því hvort hann hafi séð einhverja bætingu á liðinu milli leikja. „Já einhver atriði. Við vorum með aðeins öðruvísi varnarafbrigði í kvöld og svo var Ivan flottur í kvöld þrátt fyrir að hafa verið tvöfaldaður og þrefaldað á hann. Það er á réttri leið en bakverðirnir þurfa að læra inn á hann og koma boltanum á hann og við þurfum að fá jafnvægi inni og úti og fá jafnvægi í sóknarleikinn. Það er eitthvað sem við þurfum vinna í fyrir næsta leik.“ Að lokum var Daníel spurður út í nýjasta leikmann Grindavíkur, Travis Atson. „Hann hefur ekki náð mörgum æfingum með okkur . Hann náði 20 mínútum og ég sé alveg hvernig orku hann kemur með inn í liðið. Hann var smá í vandræðum varnarlega en ég lái honum það ekki. Eftir tvær æfingar þá fær hann smá afslátt og við sjáum hvað setur.“ Subway-deild karla Valur Grindavík
Valsmenn náðu í sinn fyrsta sigur í Subway deild karla þegar þeir lögðu Grindavík að velli 81-77 í kaflaskiptum leik sem varð spennandi í lokin eftir að ekkert benti til þeirrar þróunar lengi vel í seinni hálfleik. Bæði lið eru þá komin með tvö stig í pokann góða en það voru batamerki á leik þeirra beggja úr síðustu umferð. Sóknarleikur liðanna var ekki upp á marga fiska í fyrstu umferðinni og hélt hann áfram að vera stífur í fyrsta leikhlutanum en Valsmenn náðu að betri köflum sóknarlega en bæði lið stóðu vaktina virkilega vel í varnarleik sínum. Valsmenn höfðu átta stiga forskot eftir fyrsta leikhluta 19-11 eftir að hafa náð 9-0 spretti í lok hans. Grindvíkingar náðu vopnum sínum í öðrum leikhluta sem þeir unnu 20-25 en varnarleikurinn hélt áfram að vera góður en það sem breyttist milli leikhluta var að Grindvíkingar fundu taktinn sóknarlega. Þeir voru í fínum séns að ná forskotinu í lok fyrri hálfleiksins en eins og oft í leiknum gerði klaufaskapur vart við sig þannig að seinustu stig hálfleiksins voru Valsmanna sem voru með þriggja stiga forskot í hálfleik 39-36. Valsmenn tóku þessa seinustu körfu með sér inn í seinni hálfleikinn og gjörsamlega völtuðu yfir gesti sína og voru búnir að skora 18 stig gegn sjö þegar um sex mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta og stífnin sem Grindavík hafði liðið fyrir í sóknarleiknum gerði aftur vart við sig í þriðja leikhluta. Þeir náðu að laga stöðuna örlítið í lok leikhlutans en staðan var 63-49 að honum loknum og voru menn á því að vonin væri veik hjá Grindvíkingum. Grindvíkingar eru þó þekktir fyrir allt annað en að gefast upp og gerðu virkilega vel í því að naga leikinn til baka þannig að þegar um 40 sekúndur lifðu af leiknum þá skoraði Kristinn Pálsson þriggja stiga körfu til að minnka muninn í þrjú stig 79-76. Grindvíkingar fengu þá víti þegar 11 sekúndur voru eftir en Naor Sharabani náði ekki að nýta nema annað þeirra en kollegi hans á hinum endanum, Pablo Bertone, klikaði ekki á vítalínunni hinum megin og lokaði leiknum sem endaði 81-77. Valsmenn geta gengið sáttir frá borði enda komnir á blað í Subway deildinni en Grindvíkingar þurfa að líta inn á við og sjá hvað þarf að laga til að þeir lendi ekki oft á eltingaleik í hverjum leik. Afhverju vann Valur? Þegar á reyndi náði Valur að hnýta saman góðan varnarleik og sóknarleik. Þeir bjuggu sér til gott forskot í þriðja leikhluta og þegar á hólminn var komið reyndist sá munur sem var á liðunum vera of mikill til að Grindvíkingar næðu að hala þá inn. Grindvíkingar gerðu góða tilraun en Valsmenn stóðust prófið. Hvað gekk vel? Varnarleikur liðanna var heilt yfir mjög góður. Sóknarleikurinn gekk ekki vel nema á köflum en hann gekk þá betur hjá Valsmönnum þegar þeir fundu taktinn en þegar þeir fundu hann þá komu einnig til sögunnar sóknarfráköst en upp úr þeim skoruðu heimamenn 13 stig á móti fjórum gestanna. Hvað gekk illa? Við verðum að tala um sóknarleikinn. Grindvíkingar náðu ekki að passa nógu vel upp á boltann og töpuðu honum 18 sinnum í leiknum. Valsmenn töpuðu honum 12 sinnum sem er skömminni skárra en Valsmenn nýttu sér vel töpuðu boltana hjá Grindavík og skoruðu 21 stig upp úr töpuðum bolta hjá Grindavík en gestirnir skoruðu einungis níu þannig stig. Tölfræði sem vakti athygli Blaðamaður talaði um það í byrjun leiks og stigin í teignum yrðu vandamál fyrir Valsmenn í dag þar sem fyrir var Ivan Aurrecoechea. Annað kom á daginn. Valsmenn skoruðu 44 stig í teig gestanna en Grindavík einungis 24 stig hinum megin. Bestir á vellinum? Pablo Bertone leiddi Valsmenn til sigurs með 22 stig og fimm stoðsendingum. Valsmenn fengu hinsvegar framlag úr mörgum áttum og skoruðu allir í byrjunarliðinu yfir 10 stig. Hjá Grindvíkingum var Ivan Aurrecoechea stigahæstur með 23 stig en hann bætti við 17 fráköstum og sex stoðsendingum. Kristinn Pálsson bætti við 20 stigum og hitti mörgum stórum skotum. Hvað næst? Grindvíkingar fá KR í heimsókn í næstu umferð en þar eru á ferðinni tvö lið sem hafa unnið einn leik hingað til. Verkefni Valsmanna er svo verðugt en þeir þurfa að bruna inn í Reykjanesbæ og keppa við Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni. Daníel Guðni: Það þurfti bara að kveikja á orkustiginu Þjálfari Grindvíkinga, Daníel Guðni Guðmundsson, var að vonum súr með niðurstöðuna úr leiknum fyrr í kvöld og var spurður að því hvað hafi skilið á milli hjá liðunum. „Þetta voru tveir slæmir kaflar hjá okkur í fyrsta og þriðja leikhluta sem riðu baggamuninn í kvöld. Þetta var hálf sérstakt hérna í lokin að þetta hafi verið spennandi en þeir höfðu betur og áttu það skilið.“ Daníel var spurður hver skilaboðin hafi verið milli þriðja og fjórða leikhluta en þá var munurinn talsverður og ekki mikil von fyrir hans menn. „Það þurfti bara að kveikja á orkustiginu. Í þriðja leikhluta þá ýttu þeir okkur út úr öllu og við vorum bara litlir í okkur og vorum að senda lélegar sendingar og það er bara aldrei vænlegt til árangurs. Við náðum svo að gjörbreyta því í fjórða leikhluta. Það er gaman að sjá að það geti gerst en að sama skapi svekkjandi að það sé ekki hægt að spila svona í fyrsta og þriðja leikhluta líka því það virðist vera þannig að um leið og við fáum 4-6 stig á okkur þá lítur það út eins og það sé búið að sprengja einhverjar blöðru sem fýkur bara eitthvert undir engri stjórn.“ Næst var Daníel spurður að því hvort hann hafi séð einhverja bætingu á liðinu milli leikja. „Já einhver atriði. Við vorum með aðeins öðruvísi varnarafbrigði í kvöld og svo var Ivan flottur í kvöld þrátt fyrir að hafa verið tvöfaldaður og þrefaldað á hann. Það er á réttri leið en bakverðirnir þurfa að læra inn á hann og koma boltanum á hann og við þurfum að fá jafnvægi inni og úti og fá jafnvægi í sóknarleikinn. Það er eitthvað sem við þurfum vinna í fyrir næsta leik.“ Að lokum var Daníel spurður út í nýjasta leikmann Grindavíkur, Travis Atson. „Hann hefur ekki náð mörgum æfingum með okkur . Hann náði 20 mínútum og ég sé alveg hvernig orku hann kemur með inn í liðið. Hann var smá í vandræðum varnarlega en ég lái honum það ekki. Eftir tvær æfingar þá fær hann smá afslátt og við sjáum hvað setur.“
Leik lokið: Holland - Ísland 27-25 | Tveggja marka tap niðurstaðan eftir flotta frammistöðu gegn erfiðum andstæðingi Handbolti
Leik lokið: Holland - Ísland 27-25 | Tveggja marka tap niðurstaðan eftir flotta frammistöðu gegn erfiðum andstæðingi Handbolti