Þór lagði Ármann og sigurgangan heldur áfram

Snorri Rafn Hallsson skrifar
Ármann vs Þór

Ármann hóf tímabilið illa með stóru tapi gegn Dusty en krækti svo í stig gegn Vallea í síðustu umferð. Þórsarar hafa hins vega fá veikleikamerki sýnt og hafði liðið unnið báðar sínar viðureignir hingað til. Með sigri gat Þór styrkt stöðu sína á toppi deildarinnar en til mikils var að vinna fyrir Ármann sem gat tvöfaldað stigafjölda sinn og híft sig upp um nokkur sæti með sigri.

Liðin mættust í hinu sívinsæla Dust 2 korti, sem bæði lið ættu að þekkja vel. Ármann vann hnífalotuna og kaus að byrja í vörn (Counter-Terrorists) svo Þórsarar fengu það hlutverk að reyna að sprengja borgina upp í fyrri hálfleik. Strax í upphafi náði Ármann góðu forskoti og vann fyrstu fjórar loturnar. Liðið var duglegt að fella andstæðingana snemma í lotunum, læðast til að sækja sér upplýsingar og hafa betur í lokaeinvígum til að bjarga lotum fyrir horn. Þór þurfti að hafa mikið fyrir því að fá sitt fyrsta stig í fimmtu lotu þegar liðið var tveimur mönnum undir og í slæmri stöðu. Þeim tókst þó að jafna í liðum og kaupa sér tíma til að koma sprengjunni fyrir sem Allee og Rean vörðu glæsilega. Dell1 ruddist svo inn til Ármanns í næstu lotu sem Þór vann einnig og með byr undir báðum vængjum sigldi liðið hægt og örugglega fram úr Ármanni. Ármann lendi í fjárhagsvandræðum sem Þór nýtti sér til að ná góðu forskoti fyrir seinni hálfleikinn.

Staða í hálfleik: Þór 9 - 6 Ármann

Þó var ekki allur vindur úr seglum Ármanns. Góðar staðsetningar og samspil gerði þeim kleift að jafna í 9-9 í fyrstu þrem lotum síðari hálfleiks, en eftir það var fátt um fína drætti. Allee bjargaði næstu lotu fyrir horn með stórkostlegri fellu á Pallabónda og þá var Þórsvélin komin aftur í gang. Detinate sem lítið hafði sést til í fyrri hálfleik fór að hitta vel og skapa tækifæri en StebbiC0C0 átti stórleik með vappann í hönd. Skipti þá engu máli hvort skotin voru af stuttu eða löngu færi, hann hitti þeim öllum. Þrisvar sinnum í síðari hálfleik vann hann einvígi einn á móti einum gegn Vargi og gerði þar með út um möguleika Ármanns á að koma sér aftur inn í leikinn. Þrátt fyrir brösuglega byrjun sigldi Þór því sigrinum heim og sýndu að þeir munu ekkert gefa eftir á þessu tímabili.

Lokastaða: Þór 16 - 9 Ármann

Þórsarar eru því enn á toppi deildarinnar, ósigraðir með sex stig en Ármann er í sjötta sæti með tvö. Liðin leika næst föstudaginn 29. október þegar Þór mætir XY og Ármann Sögu. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir